Á skjólsælum stað mitt í gullna þríhyrningnum, eins og svæðið sem Suðurlandsbrautin, Skeifan og Ármúlinn markar er oft kallað, er að finna veitingastaðinn Krúsku.

Vafalaust hafa margir gert sömu mistök og undirritaður og forðast staðinn um árabil í þeirri trú að þar væru eingöngu seldar rauðbeður. Því fer fjarri. Matseðillinn er fjölbreyttur, heilsusamlegur og ber þess merki að vera eldaður frá grunni á staðnum.

Þetta er skyndibitastaður í þeirri merkingu að margir réttir á borð við eggjakökur og salöt eru tilbúnir í borðinu. Aðrir réttir eru framreiddir hratt og örugglega og valkyrjurnar sem standa í framvarðarsveit veitingastaðarins koma þeim hratt og örugglega á borðið. Súpurnar eru sérstaklega góðar og eru góður valkostur yfir veturinn.

Krúska er einn besti valkosturinn í hádeginu þegar tíminn er af skornum skammti og leitað er eftir hollum og bragðgóðum mat.

Ekki skemmir svo fyrir að á meðan setið er að snæðingi er hægt að fylgjast með helstu kyndilberum íslenskrar afþreyingarmenningar koma til og frá vinnu hjá Sýn sem er í næsta nágrenni. Þannig barði sá sem þetta skrifar bæði þá Rikka G. og Magnús Hlyn augum síðast þegar hann borðaði á Krúsku.

Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn 10. apríl 2024.