La Primavera er að öðrum ólöstuðum einn besti veitingastaður landsins. Þrátt fyrir gæðin er verðinu stillt í hóf sérstaklega þegar horft er til gæða hráefnisins.
Í hádeginu er hægt að borða þríréttað fyrir 5.200 krónur. Matseðillinn er einfaldur. Þrír forréttir og svo val um aðalrétt sem er alla jafna fiskréttur, pastaréttur og kjötréttur.
Í stuttu máli er maturinn óaðfinnanlegur. Eldamennskan einföld og laus við alla stæla. Þó kemur fyrir að fiskurinn er bragðdaufur og tilþrifalítill. Pastaréttirnir eru aftur á móti alltaf úr hæstu hillu.
Forréttirnir eru léttir og góðir og heldur sá sem þetta skrifar sérstaklega upp á arancini en eins og allir fágaðir mataráhugamenn vita er það svar ítalskrar matarmenningar við ostapoppinu sem er framleitt af hinu goðsagnakennda fyrirtæki Iðnmark í Hafnarfirði.
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í gær, 19. janúar 2023.