Volvo V60 tengiltvinnbíllinn er nýfarinn í framleiðslu og fyrstu þúsund bílarnir sem verða framleiddir eru allir uppseldir. Reiknað er með að árið 2014 verði framleiðslan komin í 4000-6000 bíla á ári.
Það eru fleiri en 300 nýir íhlutir í Volvo V60 tengiltvinnbílnum sem eru nýir. Breytingarnar á bílnum kalla á mikla aðlögun í framleiðsluferlinu, til dæmis á færiböndum og vélmennum.
Þrír bílar í einum
En það er ekki aðeins ótrúlegur sparnaður bílsins og ný tækni sem hefur skapað mikla eftirspurn eftir honum. Volvo V60 er dísiltengiltvinnbíll sem er í raun þrír bílar í einum. Bíllinn bíður upp á þrjár stillingar: Pure, Hybrid og Power. Í Hybrid stillingunni er eldsneytisnotkun 1,8 lítrar á hundraðið og losun CO2 aðeins 48 g/km. Þá getur ökumaðurinn ekið 50 kílómetra á rafmagni eingöngu í Pure stillingunni og þá losar bíllinn auðvitað ekkert af koldíoxíði. Rúsínan í pylsuendanum er svo Power stillingin en þar nýtir bíllinn afl dísilvélarinnar sem er 215 hestöfl og afl rafmagnsmótorsins sem er 70 hestöfl sem þýðir 285 hestöfl og 640 Nm í tog. Það þýðir að þessi ofursparneytni bíll er líka algjör raketta sem kemst í 100 km/klst á 6,1 sekúndu.
Með hæstu einkunn
Bíllinn náði fimm stjörnum sem er hæsta mögulega einkunn hjá Euro NCAP. Árekstrarprófunin fer meðal annars fram með þeim hætti að bílnum er ekið á ská á hindrun á 64 km/klst og er tengiltvinnbíllinn einfaldlega jafn öruggur og hefðbundinn Volvo V60 við þær aðstæður.
Það er ekki auðvelt að ná þessum árangri þar sem bíllinn er hlaðinn rafhlöðum sem eru þungar og því þarf að taka tillit til þess þegar reynt er að tryggja jafnmikið öryggi í tengiltvinnbílnum eins og í hefðbundnum V60. Með öðrum orðum þarf að huga sérstaklega að því hvernig krumpusvæði bílsins hegða sér með rafhlöðunum í bílnum.