Bíllinn er vel búinn af staðalbúnaði og Edition pakkinn bætir því sem þarf við fyrir íslenskar aðstæður. Leðurklætt upphitanlegt stýri og fjarstýring fyrir olíumiðstöð á dísel bílnum koma sér vel á köldum dögum líkt og þeim sem bíllinn var reynsluekinn. Í frosthörku nóvembermánaðar fékk ég til umráða í nokkra daga Ford Transit Custom Trend með Edition pakkanum.
Bíllinn var beinskiptur af styttri gerðinni með 2602 mm lengd á hleðslurými en hægt er að fá hann með 400 mm lengri gerð. Hæðin er sú sama í báðum bílum 1433 mm en hann verður í boði með háþekju árið 2026 þegar framleiðsla hefst á þeirri gerð.
Góð aðstaða fyrir ökumann og farþega
Bíllinn er þriggja manna og er bílstjórasæti og ytra farþegasæti upphitanleg. Ökumannssætið er með armpúða og mjóbaksstuðningi og virkaði frekar þægilegt.
Mælaborðið er með stafrænum mælum sem hægt að breyta eftir því hvaða valmynd bílstjórinn vill hafa fyrir framan sig. Fyrir miðju er síðan 13” snertiskjár. Heilt skilrúm er milli farþegarýmis og vörurýmis og er það með glugga. Vörurýmið er með rennihurðir á báðum hliðum og er það með LED lýsingu í Edition pakkanum auk þess sem klæðning er í gólfi og hliðum.
Framendi bílsins hefur tekið breytingum og flott hvernig aðalljósin tengjast með lista yfir grillinu. Þá eru aðalljósin með beygjulýsingu sem eykur mikið á öryggið. Framrúðan er upphitanleg og er regnskynjari á henni.
Transit Custom er á 16” stálfelgum með heilkoppum. Bíllinn kemur með bakkmyndavél og vegskiltalesara auk veglínuskynjara. Árekstrarvörn er einnig í bílnum.
Það kom mér skemmtilega á óvart hversu léttur bíllinn var í akstri og líkara því að um stærri fólksbíl eða sportjeppa væri að ræða. Vegna skilrúmsins er einangrunin góð og veghljóð er lítið sem ekkert.
Í Transit Custom hefur maður tilfinningu fyrir að maður sé á hærri bíl og gefur þetta auka öryggi. Þá er útsýni mjög gott úr bílnum og eru hliðarspeglarnir tvískiptir sem gefur auka útsýni. Ágætis kraftur er í bílnum sem reynsluekinn var, vélin 2.0 EcoBlue með 136 hestöflum og 6 gíra beinskiptingu. Vélin er líka einstaklega hljóðlát. Hægt er að fá bílinn sjálfskiptan auk kraftmeiri véla, allt upp í 170 hestöfl.
Býður upp á marga möguleika
Ford Transit Custom er bæði til í Trend og Limited útfærslum. Í Limited pakkanum eru álfelgur, Led aðalljós og rafdrifnir aðfellanlegir speglar og lyklalaust aðgengi. Bílarnir sem Brimborg er að flytja inn eru án glugga en hægt er að fá þá pantaða með gluggum, sem og hægt er að breyta þeim og setja glugga í. Brimborg býður Ford Transit í 10 mismunandi litum og var liturinn á reynsluakstursbílnum Frozen White. Fjórhjóladrifin útgáfa er einnig fáanleg og sem slíkur gæti Ford Transit Custom verið fínasti kostur fyrir húsbíl. Þá er möguleiki á að hækka hann um 4 cm og þá væri hægt að koma stærri hjólum undir hann. Verð reynsluakstursbílsins er 7.290.000 kr. en án VSK 5.879.032 kr. Edition pakkinn fyrir Trend kostar 400.000 kr. aukalega.
Sendibíll ársins 2024
Ford Transit Custom var valinn sendibíll ársins 2024 af fagaðilum í nóvember 2023. Verðlaunin voru þau fimmtu sem Ford Tranist Custom hefur fengið þau 23 ár sem verðlaunin hafa verið veitt. Áður hafði Ford fengið verðlaunin fyrir Tranist Custom, 2001, 2007, 2013 og 2020.