Þann 11. mars 1980 opnaði fyrsti fljótandi McDonald‘s veitingastaður í heimi við St. Louis-ánna í Bandaríkjunum. Skyndibitakeðjan hafði vonast til að opna veitingastað í Gateway Arch, skammt frá ánni, en fékk ekki leyfi frá borgaryfirvöldum.

Þess í stað ákvað McDonald‘s að beina athygli sinni að árbakkanum. Leyfið fór í gegn og keypti fyrirtækið bát þar sem viðskiptavinir voru rukkaðir sex dali í aðgangseyri.

Veitingastaðurinn var þó tæknilega séð ekki bátur heldur skreyttur sementsprammi með byggingu ofan á sem leit út eins og bátur frá 1880. Hann var 56 metrar að lengd og 15 metrar á hæð og vó um 700 tonn. Innréttingin var stíluð í samræmi við 19. aldar málverk og veggmyndir og rúmaði 134 sæti og 200 bekki fyrir utan.

McDonald‘s staðurinn var með 200 manna áhöfn og voru þeir allir klæddir í einkennisbúninga. Eigandi sérleyfisins, tannlæknirinn Dr. Benjamin H. Davis, fékk meira að segja aðmírálsbúning. Ekkert benti þó til að matseðillinn væri öðruvísi en á öðrum McDonald‘s stöðum.

Hugmyndin virtist virka vel því nokkrum árum seinna opnaði svipaður veitingastaður í Vancouver í Kanada og sagði forstjórinn á þeim tíma að sérleyfishafar í Hong Kong hefðu einnig beðið um leyfi fyrir bát.

Þann 7. nóvember 2000 var greint frá því í St. Lousi Business Journal að báturinn hefði hætt starfsemi deginum á undan vegna byggingarvandamála. Sementspramminn þurfti miklar endurbætur og gátu sérleyfishafar ekki réttlætt kostnaðinn til að halda staðnum gangandi.

Í dag lifir báturinn aðeins á póstkortum og myndum sem voru að öllum líkindum seld til viðskiptavina um borð í skipinu sem seldi líka hamborgara og franskar.