Ný deild innan atvinnudeildar kvenna í körfubolta í Bandaríkjunum hefst á föstudaginn með hæstu meðallaun í sögu íþróttadeildar kvenna þar í landi.
Unrivaled, ný deild innan atvinnudeildar kvenna í körfubolta í Bandaríkjunum, hefst á föstudaginn en deildin er sögð bjóða upp á mörg tækifæri fyrir kvennaíþróttir þar í landi sem eru að upplifa vaxandi áhorf.
Deildin var stofnuð af WNBA-stjörnunum Napheesa Collier og Breanna Stewarst og hefur þegar safnað 35 milljónum dala í fjármögnun. Þá hefur hún einnig tryggt sér tugi samninga við ýmsa styrktaraðila.
„Þegar þú fjárfestir í leikmönnum og fjárfestir í kvennaíþróttum, þá held ég að við munum strax sjá vöxtinn. Þetta er bara byrjunin fyrir okkur. Þetta er fyrsta árið og við höfum þegar gert þetta, þannig við erum mjög spennt fyrir framtíðinni,“ segir Napheesa Collier í samtali við CNBC.
Leikirnir verða sýndir á Warner Bros. Discovery, sem er í eigu TNT Sports og verður með sýningarrétt í mörg ár. „Það er augljóslega mikill áhugi fyrir fyrsta deginum og þú vilt sjá áhorfendur stækka og stækka á tímabilinu,“ segir Lee Berke, forstjóri LHB Sports, Entertainment & Media.
Leikmenn Unrivaled verða þá einnig með hærri laun en leikmenn WNBA. Heildarlaunapotturinn er meira en átta milljónir dala sem þýðir að hver og einn leikmaður mun þéna að meðaltali 242 þúsund dali á tímabilinu. Þá fá leikmenn einnig hlutafé og tekjur frá deildinni og verða meðallaunin þau hæstu í sögu atvinnuíþróttadeildar kvenna.