Lissabon er ein elsta borg Evrópu. Finna má ummerki um rómverskan miðaldaamúr í Alfama-hverfinu og sömuleiðis í Gyðingahverfinu.
Borgin hefur upp á margt að bjóða, m.a. skemmtilegan og litríkan arkitektúr og sjarmerandi gömul hverfi. Það er gaman að sækja Portúgala heim því þeir eru sérlega gestrisnir og þjónustuliprir. Breiðgatan Avenida da Liberdade, þar sem er að finna verslanir með helstu tískumerkjunum, skiptir borginni má segja í tvær hæðir. Breiðgatan er löng og liggur frá Margues de Pombal torginu niður að ánni Tagus.
Hin tignarlega Vasco de Gama brú, nefnd í höfuðið á landkönnuðinum fræga, liggur yfir Tagus-ána en hún er önnur stærsta brú Evrópu, alls 17.200 metrar að lengd.
Þetta skaltu skoða og gera
Það er ágætt úrval af gististöðum, allt frá billegum en samt ágætum upp í óskaplega fallega kastala og þá af dýrari gerð.
Bairro Alto
Það er ekki hægt að heimsækja Lissabon án þess að rölta um þröngar og steinlagðar götur gamla borgarhlutans sem nefnist Bairro Alto. Gamli bærinn er ákaflega sjarmerandi og þar er hægt að finna skemmtileg lítil torg þar sem hægt er að setjast niður og slaka á sem og skemmtilega veitingastaði, kaffihús og verslanir.

Castelo de Sao Jorge
Kastali borgarinnar stendur ofarlega á hæð og trónir yfir borginni. Það er magnað útsýni úr kastalanum yfir borgina og út á ána. Eitt sinn réðu aðalsmenn og riddararar ríkjum í kastalanum en í dag eru það litríkir páfuglar sem stýra virkinu. Þeir labba um kastalann eins og þeir eigi hann og heilsa upp á gesti og gangandi. Það er reyndar afar skemmtilegt að labba upp í kastalann því þröngar og skemmti- legar götur með litríkum og fallegum húsum verða á vegi ferðalanga. Þetta er talsverð ganga upp á móti en vel þess virði. Og alltaf er hægt að stoppa og fá sér hressingu þar sem lítil kaffihús og sjarmerandi veitingastaðir eru á hverju götuhorni og gæða sér á Pastel de Nata

Gulir sportvagnar
Gulir sporvagnar eru eitt frægasta kennileiti Lissabon. Þeir eru út um allt og sérstaklega í gamla bænum. Það er ævintýri að hoppa upp í sporvagn og láta sig líða um gömlu strætin. Í leiðinni er hægt að virða fyrir sér fögur og flísalögð hús sem og veggjakrotsmyndir sem eru hluti af samtímalist sem borgarbúar eru stoltir af. Það getur líka verið sniðugt að stökkva upp í sporvagn og spara sér brattar gönguleiðir upp í gamla bæinn eða á kastalahæðina. Vagn númer 28 er frægasti sporvagn borgarinnar.

Híerónýmusarklaustrið
Híerónýmusarklaustrið er í Betlemshverfinu og er stór og glæsileg miðaldabygging sem var reist á síðari hluta 15. aldar á hinum merka landafundatíma í sögu Portúgal. Árið 1983 var klaustrið sett á heimsminjaskrá UNESCO.
Livraria Bertrand
Ein elsta bókabúð í heimi er í Lissabon en hún var opnuð 1732 og er í Chiado-hverfinu. Þar er hægt að grúska í ævafornum skruddum og gleyma sér innan um gamlar og sígildar bókmenntir.

Betlehemsturninn
Torre de Belhem eða Betlehemsturninn er fimm hæða viti og virki í samnefndu hverfi. Turninn var reistur á árunum 1515-1519 til að verja höfnina. Turninn er frægastur fyrir að vera sá staður þaðan sem landkönnuðir Portúgala lögðu af stað til að kanna ný lönd
á 16. og 17. öldinni. Hann var einnig notaður sem fangelsi á miðöldum. Turninn er opinn ferðamönnum og geta gestir skoðað dýflissurnar og fetað sig eftir þröngri leið upp á 35 metra hátt útsýnissvæði þar sem hægt er að horfa yfir Tagus-ána auk minnismerkisins um landvinninga Portúgala.
Benfica og Sporting
Tvö öflug knattspyrnulið eru í borginni, Benfica og Sporting, og fótboltahefðin er rík meðal borgarbúa. Það er sniðug hugmynd fyrir fótboltaunnendur sem heimsækja borgina að skella sér á leik með öðru hvoru liðinu sem yfirleitt kljást um titilinn í Portúgal ásamt Porto. Það er mikil stemmning á leikjum Benfica og Sporting og oft uppselt á leikina þannig að það getur verið sniðugt að bóka miða í tíma.
Hér skaltu borða
Portúgalar hafa sterkar matarhefðir og elska fisk, kjöt og grænmeti. Þeir eru einnig undir talsverðum áhrifum frá Ítalíu þegar kemur að matarvenjum og finna má fjölmarga ítalska veitingastaði í Lissabon. Hér eru nokkrir af bestu og skemmtilegustu veitingastöðum í borginni.
Time Out Market
Matarmarkaðurinn Time Out Market í Bairro Alto býður upp á fjölbreytt útval veitingastaða. Matarmarkaðurinn opnaði 2014 og hefur verið gríðarlega vinsæll meðal heimamanna ssem og ferðamanna. Þar er hægt að smakka alls konar gómsætan mat frá ýmsum heimshornum. Þetta er eitthvað fyrir bragðlaukana. Það er gaman að heimsækja matarmarkaðinn og stemningin er geggjuð.

Leonetta
Þetta er frábær ítalskur veitingastaður og innréttaður í ekta ítölskum stíl. Matseðillinn samanstendur af framúrskarandi pastaréttum. Eftiréttirnir eru ekta ítalskir, m.a. Pannacotta og Tiramisu og bragðast guðdómlega. Það er dekrað við bragðlaukana á þessum stað. Og svo er boðið upp á glas af Limoncello eftir matinn sem setur punktinn yfir i-ið.
Tapisco
Frábær Tapas staður með fullt af Michelin stjörnum sem býður upp á eitt besta tapas sem hægt er að finna í Portúgal og þó víðar væri leitað. Það þarf yfirleitt að bóka borð á kvöldin enda mikið sóttur staður en mögulegt er að ráfa inn af götunni og fá borð yfir daginn. Þetta er staður sem vert er að heimsækja.

Neighbourhood Café
Þetta er skemmtilegur veitingastaður í Bairro Alto. Býður upp á æðislegan tyrkneskan eggjarétt og egg benedict með hægelduðu kjöti í hádegismat og geggjuðu burrito og hamborgara á kvöldin. Það eru ekki mörg borð í salnum og yfirleitt þarf að bíða eftir borði en það er þess virði.
DUICHE
Hér færðu bestu samlokur í allri Lissabon. Þær eru framreiddar með hægelduðu kjöti. Ekta samlokustaður með mikinn gæðastimpil. Það þekkja allir heimamenn þennan stað.
Þetta skaltu borða
Bacalhau
Saltfisk þarf ekki að kynna fyrir Íslendingum en hann er sérlega vel matreiddur í Lissabon. Þar heitir hann Bacalhau og fæst á flestum veitingahúsum borgarinnar. Bacalhau Islandia er dýrasti saltfiskurinn og auðvitað sá besti.
Pastel de Nata
Þetta er vinsælasta og jafnframt frægasta sætabrauð Portúgala. Þetta er einfaldlega smjördeigsskál fyllt með bökuðum vanillubúðingi. Mjög bragðgott og raunar hættulega gott. Pastel de Nata er að finna á öllum veitinga- og kaffihúsum borgarinnar.
Piri Piri kjúklingur
Piri Piri kjúklingur er vinsæll í Lissabon. Sannarlega góm- sætur þótt þetta sé ekki flókin matargerð. Það er sérlega gaman að borða Piri Piri kjúkling á veitingastaðnum Bon Jardim sem er fallegur staður í miðborginni.