Gardavatn liggur í skjóli Alpanna í norðri og suður af vatninu er Pósléttan. Það er 370 ferkílómetrar að stærð og stærsta vatn Ítalíu. Það teygir sig inn í þrjú héruð, Veneto, Lombardia og Trentino-Alto Adige.

Náttúrufegurðin er mikil og norður af vatninu er mikið ólífu- og vínræktarsvæði, en Valpolicella dalurinn er einna þekktastur. Gardavatn er án efa einn fallegasti staður á Ítalíu, en þeir eru reyndar óteljandi. Margar leiðir eru til að komast að vatninu.

Beint flug til Mílanó og síðan um klukkustundar lestarferð að annarri hvorri lestarstöðinni við vatnið, eftir því hvert ferðinni er heitið. Svo er stundum beint flug í boði til Veróna, sem er steinsnar frá Garda, eða annarra borga í nágrenninu.

Hér skaltu búa

Það er ágætt úrval af gististöðum, allt frá billegum en samt ágætum upp í óskaplega fallega kastala og þá af dýrari gerð.

Hotel Ristorante Locanda San Vigilio

Rétt eftir að ekið er í gegnum sjálfan Garda-bæinn kemur maður að þorpinu San Viglio, sem nefnt er í höfuðið á biskupnum af Trento frá 385 til 402. Þar er að finna einn af fallegustu gististöðunum við vatnið, Locanda San Vigilio. Hótelið hefur verið starfrækt frá árinu 1540. Gestir sem þarna hafa dvalið eru því sögufrægar persónur. Má þarna nefna Napóleon Bónaparte keisara Frakklands, Alexander II Rússakeisara, Winston Churchill forsætis- ráðherra Bretlands og Karl III konung.

Aðeins eru fjórtán herbergi, þar af nokkrar stórar svítur. Sumar þeirra eru með stórum inngörðum. Morgunverðurinn er utandyra á góðum dögum með einstöku útsýni yfir vatnið. Veitingastaðurinn er vinsæll meðal hótelgesta sem og þeirra sem búa á svæðinu. Allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi og verðið er sanngjarnt. Starfræktur er veitingastaður á höfninni við hótelið. Þangað kemur fólk gangandi, hjólandi, keyrandi og siglandi. Það er mikill sjarmi yfir því þegar fólk kemur prúðbúið á gljáfægðum ítölskum viðarbát, leggur að landi og fær sér apperativo. Það er nokkuð síðan hótelið var síðast endurnýjað en það skiptir nákvæmlega akkúrat engu máli. Þetta er einstakur staður.

Grand Hotel a Villa Feltrinelli

Villa Feltrinelli var byggð árin 1892-1899 fyrir hina ofur ríku Feltrinelli fjölskyldu. Hún er rétt norður af Gargnano þar sem fjölskyldan bjó frá 17. öld. Frá árinu 2001 hefur verið starfrækt 20 herbergja hótel í villunni sem er af dýrari gerðinni enda ákaflega glæsilegt og vel við haldið. Hótelið er opið frá miðjum apríl til seinni hluta október. Herbergið kostar frá 270 þúsund krónum nóttin. Veitingastaðurinn á hótelinu er með tvær Michelin stjörnur. Þar er bara eitt í boði, átta rétta matseðill sem kostar 46 þúsund krónur á mann – án drykkja.

Það er upplifun að koma á þetta fjölskylduheimili og ef mönnum finnst verðið í bland við íslenska stýrivexti taka full þungt í veskið, má fara þarna og fá sér einn drykk. Sá má vera sódavatn.

Ítalskur andi og saga svífur þarna yfir vötnum. Fjölskyldan varð meðal annars stórefnuð á því að selja stálið í járnbrautarteinana í landinu. Fjölskyldufaðirinn og húseigandinn Carlo lést árið 1935. Þá tók við keflinu sonurinn Giangiacomo. Sá var sérstakur fýr. Einn ríkasti maður Ítalíu en aðhylltist kommúnisma og síðan sósíalisma, eftir að fyrri isminn beið skipbrot í Sovétinu.

Meðal annars til að falla betur í kramið hjá hinum kommunum, og fela peningaslóðina, gerðist hann bókaútgefandi og bókasali og gaf meðal annars út Doktor Zhivago. Benito Mussolini, fasisti og einræðisherra Ítalíu, fleygði fjölskyldunni út úr villunni og bjó þar sjálfur árin 1943-1945. Villan var því um skeið sannkallað vitleysingjahæli. Og vart má sjá muninn á fasistanum og kampavínskommanum Giangiacomo.

Þetta skaltu skoða og gera

Það er vissulega full vinna að slappa af ef dvalið er á gistihúsunum tveimur, sem fjallað var um hér að framan, eða öðrum sambærilegum. En það er margt annað hægt að gera þó svo það sé langt frá því að vera nauðsynlegt. Til dæmis er Gardaland, skemmtigarðurinn við suðausturhornið á vatninu, eflaust skemmtilegur fyrir þá sem eru á ferðalagi með börnum. En það er lítt spennandi að aka framhjá honum og er hann í engum takti við fegurð svæðisins.

Sigling á viðarbát

Það er nauðsyn að fara í siglingu á viðarbáti. Það skiptir í sjálfu sér engu hvert siglt er. Góð afsökun fyrir siglingu er að finna veitingastað hinum megin við vatnið. Eða fara í leiðangur á milli staða sem bjóða upp á apperativo. Svo má líka bara sigla hringinn en frá vatninu er langbesta útsýnið yfir byggingar á svæðinu.

Basilica of the Madonna della Corona

Kirkjan var tilbúin árið 1530 og byggð utan í klettavegginn, þannig að kletturinn er útveggur. Útsýnið er gríðarlegt úr kirkjunni sem er í 774 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er svolítið ferðalag að fara frá vatninu að kirkjunni, vegirnir þröngir og brattir en þess virði.