Kodiaq hefur stækkað aðeins frá síðustu kynslóð, er orðinn 4.758 mm að lengd, 1.864 mm að breidd og hæðin er 1.678 mm. Veghæðin er 170 mm. Skoda Kodiaq er bæði í boði með 2.0 TDI díselvél sem og með hybrid vél sem gefið er upp að nái 100 km á rafmagninu. Það var dísel bíllinn sem reynsluekinn var og er uppgefin eyðsla hans 6,4 l á 100 km.
Þéttur og vel útbúinn
Kodiaq er einstaklega þéttur og voru lítil sem engin vélarhljóð sem heyrðust í innanrými bílsins. Veghljóð eru einnig minniháttar. Bíllinn kemur á 18” álfelgum, með langbogum og skyggðum afturrúðum. Stafrænt mælaborð er í mælaborði auk sjónlínuskjás fyrir ökumann. Fyrir miðju er síðan 13” aðgerðaskjár. Framsætin eru sérstaklega þægileg, svokölluð Comfort sæti. Þau eru leðurklædd og er bílstjórasætið rafstýrt og með sætaminni. Umhverfi ökumanns er eins og best verður á kosið, allir mælar og stjórntæki einföld og þá eru aðgerðarhnappar í stýri. Miðstöðin er með samblandi af stjórntökkum og stafrænum skjáum sem virkar flott og er einfalt í notkun.
Þá er hægt að skipta um lýsingu í innanrými bílsins til að skapa rétta umhverfið fyrir ökumann og farþega. Rúðurnar í bæði fram- og afturhurðum eru rafdrifnar.
Öryggi og ný tegund framljósa
Í Kodiaq eru níu loftpúðar auk háþróaðs ökumannsaðstoðarkerfis. Í því er umferðarvöktun að aftan, fráreinavari, fjarlægðarskynjarar að framan og aftan. Einnig eCall öryggiskerfi í bílnum. Þá er einnig lítil en sniðug öryggisvörn á bílnum en það eru plasthurðarbrúnir sem smella út þegar hurðirnar eru opnaðar og koma í veg fyrir minniháttar rispur á bílnum sem og bílnum við hliðina.
Skoda Kodiaq 2,0 TDI
- Orkugjafi: Dísel 2,0 TDI
- Hestöfl: 193
- Tog: 400 Nm
- Hröðun 0-100: 7,8 sek.
- Verð: 9.590.000 kr.
- Umboð: Hekla