Bandaríska fyrirtækið Tesla er best þekkt fyrir rafbílana sína, en á heimasíðu þess má þó finna fleira en bara bíla til sölu. Til dæmis er hægt að fá hettupeysur, litla leikfangarafbíla fyrir börn, og kaffibrúsa, og nú er einnig hægt að fá þráðlaust ferðahleðslutæki með nafni serbneska uppfinningamannsins.
Tækið virkar sem þráðlaust hleðslutæki, en kemur einnig með USB-C tengi sem hægt er að stinga beint í símann, og USB-A (hefðbundið USB tengi) sem hægt er að stinga snúrum í, ef hleðsluinntak símans er annarskonar.
Tækið kostar 65 dollara, um 7000 krónur, inniheldur 6000 mAh rafhlöðu, og getur gefið frá sér allt að 5W af raforku í þráðlausri hleðslu, eða 7,5W með snúru. Eins og umfjöllun The Verge bendir á telst það enginn rosalegur kraftur fyrir nútímahleðslutæki. Hægt er að fá ferðahleðslutæki sem nær 10W þráðlaust og geymir næstum tvöfalt meiri hleðslu, fyrir aðeins 50 dollara, og með snúru ná mörg tæki allt að 20W.
Það má hinsvegar leiða að því líkum að fæstir muni kaupa tækið af því að í því felist svo góð kaup miðað við tæknilega getu þess, heldur sé aðdráttaraflið mikið frekar einfaldlega Tesla merkið, og útlit tækisins. Bílarnir frá Tesla og Elon Musk, stofnandi og framkvæmdastjóri þess, eiga sér marga dygga aðdáendur.