Bestun á seðlamagni í hraðbönkum með gervigreind, sjálfvirk sjúkdómsgreining á netinu, viðverukerfi með andlitsgreiningu og sjálfvirk mæling á koffein neyslu voru verkefnin sem urðu hlutskörpust á Ofurhetjudögum upplýsingatæknifyrirtækisins Origo.

Um er að ræða keppni milli starfsfólks í einn sólarhring sem hefur að markmiði að efla nýsköpun og þróa nýjar tæknilausnir.
Þema dagana að þessu sinni var gervigreind og markmiðið að auka þekkingu starfsfólks á gervigreind og skilja betur tækifærin sem í henni felast.

Um 20 verkefni litu dagsins ljós og var verðlaunað fyrir frumlegasta verkefnið, bestu viðbótina, bestu kynninguna og bestu hugmyndina. „Við höfum haldið Ofurhetjudaga í mörg ár og eru þeir eitt af mörgu sem við gerum til að auka nýsköpun, vöruþróun og prófa nýja tækni,“ segir Hákon Sigurhansson, framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna hjá Origo.

„Starfsmenn velja sér verkefni og vinna í hópum að því sem þá langar helst að gera og kynna síðan fyrir öðrum starfsmönnum. Við höfum fengið margar frábærar hugmyndir og lausnir í gegnum árin með þessum hætti sem hafa orðið að nýjum vörum og komið viðskiptavinum okkar til góða með ýmsum hætti. Þetta er mjög skemmtilegir dagar sem gefa starfsfólki frelsi til sköpunar sem gefst síður í dagsins önn.“