Bandaríski íþróttavöruframleiðandinn Nike mun taka við keflinu af þýska íþróttavörurisanum Adidas sem samstarfsaðili þýska landsliðsins í knattspyrnu um landsliðstreyjur þess.
Ljóst er að þýska landsliðið mun leika í öðrum búningum en frá Adidas í fyrsta sinn frá árinu 1950. Þýska íþróttaframleiðandinn var stofnaður ári áður í bænum Herzogenaurach, skammt frá Nuremberg.
Þýska knattspyrnusambandið tilkynnti í gærkvöldi um sjö ára samning við Nike sem tekur gildi árið 2027.
Sambandið sagði að Nike hefði lagt fram „langsamlega“ besta tilboðið hvað fjármál varðar ásamt því að skuldbinda sig til að styðja við ungliðastarf og kvennaknattspyrnu í Þýskalandi. Ekki er búið að gefa upp fjárhagslega skilmála samningsins.
Í umfjöllun Financial Times segir að treyjusamningurinn við Nike marki endalok á einu lengsta samstarfi af þessum toga í íþróttaheiminum. Jafnframt sé þetta enn eitt bakslagið fyrir Adidas sem hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár.
Efnahagsráðherra Þýskalands, Robert Habeck, sagði við innlendan fjölmiðil að hann ætti erfitt að ímynda sér þýska landsliðsbúninginn án randanna þriggja sem hann kallar hluti af auðkenni Þýskalands.