Flestir þekkja Kanadabúann Ryan Rodney Reynolds fyrir afrek hans á hvíta tjaldinu, enda hefur hann verið einn af ástsælustu leikurum í Hollywood um árabil og leikið aðalhlutverk í stórmyndum á borð við Deadpool. Það sem færri vita er að hann er einnig öflugur fjárfestir sem hefur auðgast verulega á hinum ýmsu fjárfestingum.
Fjölmiðlar vestanhafs meta auðæfi Reynolds á um 350 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 48 milljörðum íslenskra króna, og má ekki síður þakka vel heppnuðum fjárfestingum fyrir það heldur en leikaraferlinum.
Reynolds, sem er 46 ára gamall, hóf leiklistaferil sinn ungur að árum og rataði fyrst á skjá landa sinna í kanadísku unglinga-sápuóperunni Hillside aðeins 15 ára gamall. Í kringum síðustu aldamót fór hann svo að gera sig gildandi í Hollywood. Hann beið öllu lengur með að hasla sér völl á sviði fjárfestinga en það eru aðeins um fimm ár síðan hann hóf að fjárfesta í sprotafyrirtækjum innan hinna ýmsu atvinnugreina.
Gin og fjarskipti
Árið 2018 stofnaði Reynolds framleiðslu- og markaðsfyrirtækið Maximum Effort ásamt George Dewey en þeir félagar höfðu unnið náið saman við markaðssetningu á stórmyndinni Deadpool. Fyrirtækið sér um að framleiða stafrænar auglýsingar fyrir fyrirtæki á borð við Match Group – sem á stórt eignasafn af stefnumótaforritum á borð við Tinder, Match.com og Meetic – og fjarskiptafélagið Mint Mobile. Auglýsingarnar hafa fengið mörg milljón áhorf á YouTube. Reynolds situr einmitt í stjórn stefnumótaveldisins og nánar verður vikið að tengslum hans við fjarskiptafyrirtækið síðar.
Sama ár keypti Reynolds hlut í áfengisframleiðandanum Aviation Gin og varð um leið listrænn stjórnandi vörumerkisins auk þess að taka sæti í stjórn þess. Tveimur árum síðar var Aviation Gin selt til áfengisframleiðslurisans Diageo, sem er með þekkt áfengisvörumerki á borð við Johnnie Walker, Smirnoff, Baileys, Captain Morgan og Tanqueray á sínum snærum, á 610 milljónir dala.
Árið 2019 keypti Reynolds hlut í fjarskiptafélaginu Mint Mobile. Um leið varð hann helsti talsmaður félagsins og kom að gerð auglýsinga sem birtar voru í sjónvarpi sem og á samfélagsmiðlum hans. Reynolds er með 21 milljón fylgjenda á Facebook, nánast sama fjölda fylgjenda á Twitter og 49 milljónir fylgjenda á Instagram. Fyrir um mánuði síðan var Mint Mobile svo selt til fjarskiptarisans T-Mobile á 1,35 milljarða dala en Reynolds átti við söluna um fjórðungshlut í Mint Mobile.
Nánar er fjallað um fjárfestingar Ryan Reynolds í blaðinu Eftir vinnu, sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.