KGM bauð blaðamönnum frá Evrópu til Tyrklands til að kynna fyrsta rafbíl fyrirtækisins og fyrsta bílinn sem kemur á markað undir merkjum fyrirtækisins KGM; KG Mobility eins og suður-kóreska fyrirtækjasamsteypan KG (Korea Great) kallar bílaframleiðslu sína.

KGM bauð blaðamönnum frá Evrópu til Tyrklands til að kynna fyrsta rafbíl fyrirtækisins og fyrsta bílinn sem kemur á markað undir merkjum fyrirtækisins KGM; KG Mobility eins og suður-kóreska fyrirtækjasamsteypan KG (Korea Great) kallar bílaframleiðslu sína.

Fyrirtækjasamsteypan tók á síðasta ári yfir samlanda sína í SSangYong og stefnir nú á nýja landvinninga með nýju merki sem og með rafbílaframleiðslu sinni. Óhætt er að segja að þeim hafi tekst vel upp í fyrstu atrennu með Torres EVX, en auk þess eru nokkrir nýir sportjeppar sem og pallbíll væntanlegir frá KGM á komandi misserum.

Fullbúinn sportjeppi

KGM Torres EVX lítur úr eins og fullbúinn SUV eða sportjeppi. Hann er framhjóladrifinn og ágætlega aflmikill. Bíllinn er 4,7 metrar að lengd og 1,89 metrar að breidd. Plássið er mjög gott inni í bílnum og lofthæðin í aftursætinu með því besta sem sést í bíl af þessari stærð. Þá er farangursrýmið mjög mikið, heilir 703 lítrar. Veghæð Torres EVX er 17 cm og dráttargetan 1500 kg.

Torres er vel útbúinn tækninýjungum, leiðsögukerfi, fjarlægðarskynjurum og mörgu fleira sem flestir nýir rafmagnsbílar hafa.

Vel er vandað til verks í hönnuninni og frágangi og lítur KGM Torres EVX út fyrir að vera traustur og góður bíll. Rafhlaða bílsins er frá kínverska framleiðandanum BYD. Hún er 73,4 kWh að stærð og er KGM Torres EVX með 10 ára ábyrgð á rafhlöðunni, eða upp að 1.000.000 km akstri.

Sterklegt útlit

Að útliti minnir KGM Torres EVX aðeins á Land Rover, það er allavega eitthvað kunnuglegt við hann. Afturhlerinn er með hlíf sem kemur upp á afturrúðuna líkt og um varadekk væri að ræða, einungis gert fyrir útlitið en gefur honum sterklegt útlit. Þá er opnunin á afturhleranum á handfangi hægra megin sem gefur tilfinningu fyrir því að hurðin opnist til hægri, en það er ekki þannig heldur er rafstýrð opnun sem opnast upp.

Það er margt í hönnun bílsins sem endurspeglar arfleifð fyrirtækisins; milli framljósanna eru 7 raufar milli ljósanna sem vitna í fyrstu bílana sem fyrirtækið framleiddi, en það voru Willys jeppar fyrir herinn í Suður Kóreu. Auk þess eru afturljósin og stuðarar með táknum úr fána landsins.

Frá vestri til austurs og til baka

Leiðin sem valin var til reynsluaksturs var fyrirfram ákveðin og segja má að skipuleggjendurnir hefðu örugglega getað valið fallegri akstursleið.

Ekið var frá hótelinu sem er í Evrópuhluta Istanbúl og ferðinni heitið að nýjustu brúnni yfir Bosporussund, eða Sæviðarsund eins og norrænir menn nefndu sundið sem skilur að Evrópu- og Asíuhluta Tyrklands. Rétt áður en komið var að brúnni var stoppað fyrir myndatöku á bílnum og að henni lokinni var keyrt yfir brúna til Asíuhluta Tyrklands.

Afturhlerinn gefur jeppalegt útlit.

Merkingarnar á vegunum í Tyrklandi eru ekki þær nákvæmustu og oft á tíðum sem vantaði hraðamerkingar þegar keyrt var inn á vegi. Gerði þetta að verkum að nemar bílsins stilltu rangan hámarkshraða í viðvörunarkerfi bílsins. Ekkert við KGM að sakast þar en reyndist oft hvimleitt svo ég og samferðamaður minn þurftum að taka viðvörunarhljóðin af.

Eftir að akstri á hraðbrautinni lauk, þar sem bíllinn lá virkilega vel á 140 km hraða, var keyrður sveitavegur í átt að veitingastað þar sem næsta stopp átti að vera. Óhætt er að segja að vegirnir hafi ekki verið hinir bestu; rignt hafði og þurfti að fara varlega á nýmalbikuðum vegunum sem lágu hlykkjótt um fjalllendið. Hemlunin reyndist góð þegar nauðhemla þurfti vegna flækingshunda sem vafra um vegi og borgir Tyrklands.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.