Bandarísk yfirvöld hafa nú formlega kært Ippei Mizuhara, túlk hafnaboltastjörnunnar Shohei Ohtani til margra ára, fyrir að stela milljónum dala frá leikmanninum. Aðalsaksóknari í Kaliforníu sakaði Mizuhara meðal annars um að þykjast vera Ohtani meðan hann lagði veðmál.
Mizuhara, sem er 39 ára, var rekinn í síðasta mánuði af hafnaboltaliðinu Los Angeles Dodgers eftir ásakanir um þjófnað í tengslum við íþróttaveðmál.
Saksóknarar segja að Mizuhara hafi notað fjármuni Ohtani til að veðja á leiki og lagt ávinningana inn á reikning sem hann stjórnaði. Milli nóvember 2021 og janúar 2024 mun hann hafa millifært meira en 16 milljónir dala inn á persónulegan reikning.
„Herra Mizuhara gerði allt til að svala þessari óseðjandi lyst sinni á ólöglegum íþróttaveðmálum. Við teljum Ohtani einnig vera fórnarlamb í þessu máli,“ segir Martin Estrada, einn af dómurum í málinu.
Í ákæruskjalinu er einnig haldið fram að Mizuhara hafi nýtt sér tungumálaerfiðleika Ohtani til að hafa af honum fé. Ásamt ólöglegum veðmálum mun Mizuhara einnig hafa keypt hafnaboltakort fyrir 325 þúsund dali með peningum frá reikningi Ohtani.