Bardagasamtökin UFC hafa gagnrýnt dómara í Bandaríkjunum fyrir að hafna sáttargreiðslum í tveimur aðskildum hópmálsóknum sem sneru að samkeppnislagabrotum.
Móðurfélag UFC, TKO Group, hafði í mars sl. samþykkt að greiða 335 milljónir dala til um 1.200 bardagakappa. Um 500 bardagakappar áttu von á meira en 100 þúsund dala greiðslu og einhverjir meira en milljón dala.
Richard Boulware, dómari í Nevada, neitaði að samþykkja sáttina þar sem hann taldi að upphæðin væri of lág og hefur fyrirskipað að réttarhöld hefjist í málinu.
Í yfirlýsingu segja samtökin að þau séu ósammála úrskurðinum og eru að íhuga áfrýjun. Saksóknarar í báðum málum hafa gefið það út að þeir séu tilbúnir til að hefja sáttaviðræður á nýjan leik.
Fyrra málið var höfðað árið 2014 og náði til bardagakappa sem voru starfandi árin 2010-2017 en seinna málið sem var höfðað snerti bardagakappa sem voru starfandi frá árinu 2017. Var því haldið fram að UFC hafi lagt á ráðin við að afla sér ráðandi markaðsstöðu fyrir MMA-íþróttamenn, meðal annars með einkasamningum, þvingunum og yfirtökum á samkeppnisaðilum.
UFC sameinaðist World Wrestling Entertainment (WWE) árið 2023 og úr því myndaðist TKO Group.