Hvað er Labubu?

Labubu er karakter sem listamaðurinn Kasing Lung frá Hong Kong skapaði árið 2015 sem hluta af seríunni The Monsters. Hann er innblásinn af þjóðsögum og ævintýraheimum og einkennist af stórum eyrum, breiðu brosi og sérstæðu útliti sem gerir hann bæði hlýlegan og dularfullan.

Leikfangaframleiðandinn Pop Mart framleiðir Labubu í ýmsum útgáfum, bæði sem mjúka bangsa og harðplastfígúrur, sem seldar eru í svokölluðum „blind box“-kössum — þar sem kaupandinn veit ekki fyrirfram hvaða útgáfu hann fær.

Hverjir safna Labubu — og hvers vegna?

Þótt Labubu virðist við fyrstu sýn ætlaður börnum, hefur hann náð miklum vinsældum meðal ungs fólks og fullorðinna safnara. Á samfélagsmiðlum má sjá ótal myndbönd þar sem fólk opnar kassa, raðar fígúrum í hillur eða sýnir sjaldgæfar útgáfur.

Vinsældirnar jukust enn frekar eftir að Lisa úr K-pop hljómsveitinni Blackpink birtist með Labubu í myndbandi. Þar blönduðust saman safnaraástríða, löngun eftir einstökum munum og nostalgía eftir einfaldari tímum.

Biðu í röð alla nóttina

Aðfaranótt 25. apríl 2025 safnaðist fjöldi fólks saman fyrir utan Pop Mart verslunina á Michigan Avenue í Chicago, í þeirri von að ná sér í nýjustu Labubu-bangsana. Samkvæmt frétt NBC Chicago mættu sumir með teppi og nesti og höfðu komið sér fyrir löngu fyrir opnunartíma. Verslunin setti takmörk á fjölda sem hver viðskiptavinur mátti kaupa, en það kom ekki í veg fyrir að leikföngin seldust upp á örfáum klukkutímum.

Hvers vegna er Labubu svona eftirsóttur?

Labubu sameinar áhugaverða hönnun, nostalgíu og spennuna við að safna sjaldgæfum útgáfum. Safnarar eru reiðubúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir sjaldgæfustu eintökin, og sumir Labubu-karakterar hafa verið seldir á netuppboðum fyrir hundruð þúsunda króna.

Pop Mart hefur einnig grætt stórfé á æðinu: Samkvæmt CNN jukust tekjur fyrirtækisins um 107% árið 2024 og hagnaður tvöfaldaðist, að stórum hluta vegna vinsælda Labubu.

Hvaða Labubu-eru vinsælastir — og hvar selst mest?

Vinsælasti karakterinn um þessar mundir er Labubu Macaron Plush, sem er mjúkur bangsi í pastellitum og sérstaklega eftirsóttur eftir að Lisa úr Blackpink sýndi sinn bangsa. Þessi útgáfa hefur selst upp í mörgum borgum innan nokkurra mínútna frá útgáfu.

Sala er mest í Asíu, einkum í Kína, Hong Kong, Suður-Kóreu og Japan, þar sem safnaraæðið er mest áberandi. Hins vegar hefur áhuginn vaxið gríðarlega í Bandaríkjunum og Bretlandi á síðustu mánuðum, sérstaklega eftir opnun nýrra Pop Mart-verslana í stórborgum.