Íslenska heimildarmyndin Heimaleikurinn hlaut áhorfendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Glasgow en myndin sigraði með hæstu einkunn í 10 ára sögu verðlaunanna.
Heimaleikurinn er íþróttaheimildamynd sem fjallar um tilraun manns til að safna í lið heimamanna til að spila fótboltaleik á velli sem faðir hans lét byggja á Hellissandi fyrir 25 árum síðan.
Myndin hlaut meðal annars áhorfendaverðlaunin á Skjaldborg, Hátíð Heimildamynda í fyrra og áhorfendaverðlaun á heimilda- og stuttmyndahátíðinni Nordisk Panorama Film Festival.
Fjallað var um sigur íslensku myndarinnar á BBC og að sögn leikstjóranna, Loga Sigursveinssonar og Smára Gunnarssonar, eru þeir mjög stoltir að hafa unnið verðlaunin.
„Það að vera frá litlum bæ á Íslandi, það er svo þýðingarmikið að fá þessa viðurkenningu og þetta tækifæri til að segja sögu þessara íslensku heimamanna eins víða og hægt er,“ segja leikstjórarnir í samtali við BBC.