Tesla Model Y hefur átt mikilli velgengni að fagna hér á landi sem víðar og var hann t.a.m. langvinsælasti bíllinn á Íslandi árið 2023 en það árið seldust 3.214 bílar. Og nú er komið að uppfærslunni sem margir hafa beðið eftir og fer hún fram úr björtustu vonum. Kannski væri nær að segja að hér sé um að ræða nýjan bíl frekar en uppfærslu þar sem búið er að endurhanna Tesla Model Y, bæði efnis- og útlitslega. Ytra byrði bílsins hefur verið endurhannað frá grunni og innanrýmið er að mestu nýtt.

Mjúkur og hljóðlátur

Akstursupplifunin í nýjum Tesla Model Y var góð í alla staði. Það rigndi mikið fyrri daginn sem ég hafði hann til reynsluaksturs og þá voru sjálfvirku rúðuþurrkurnar alveg að vinna fyrir sínu. Þá vakti nýja ljósastikan greinilega athygli enda lítur hún vel út í myrkrinu. Næsta dag birti aðeins til og þá naut maður aksturseiginleika bílsins betur.

Innanrýmið er gjörbreytt og skemmtileg stemningslýsing er frammí.
© Auðólfur Þorsteinsson (VB MYND/Auðólfur)

Nýr Model Y er mun mýkri í akstri en eldri gerð þar sem fjöðrun bílsins er alveg ný og þá er bíllinn mun hljóðlátari. Umhverfi ökumanns og farþega er fyrsta flokks og sætin þægileg. Það er í raun ekkert sem truflaði mig við aksturinn fyrir utan það að keyra óneitanlega mjög varlega, vitandi það að hér var um sýningareintakið að ræða og frumsýningin daginn eftir að ég skilaði honum inn.

Model Y Long Range Dual Motor

» Orkugjafi: Rafmagn

» Orkunotkun: 14,8 kWh/100 km

» Drægni: 568 km

» Hröðun 0-100: 4,8 sek.

» Drif: Dual Motor með fjórhjóladrifi

» Verð frá: 8.290.000 kr.

» Umboð: Tesla

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu 12. mars. Greinina í heild má nálgast hér.