Heimildarmyndin Temporary Shelter (e. Tímabundið skjól) var frumsýnd í gær í Bíó Paradís en myndin fjallar um íbúa frá Úkraínu sem fengu hæli á Íslandi eftir innrás Rússa þann 24. febrúar 2022.
Myndin var því sýnd í tilefni af því að þrjú ár voru liðin frá því að stríðið hófst og mættu meðal annars Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrum utanríkisráðherra, og Logi Már Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra til að halda erindi fyrir sýningu myndarinnar.
Temporary Shelter var leikstýrt af úkraínsku kvikmyndagerðarkonunni Anastasiia Bortuali, sem fékk hæli á Íslandi eftir stríð og segir myndin frá samlöndum hennar sem eru að koma sér fyrir í nýju landi í Norður-Atlantshafi.
Helgi Felixson framleiddi heimildarmyndina en verkið var unnið í samstarfi við Iris Film á Íslandi og Felix Film í Svíþjóð.
Kvikmyndin hefst með fréttatilkynningum um að stríð sé hafið en fljótlega fá áhorfendur að kynnast úkraínskum feðgum sem eru að sækja móður drengsins við komu hennar til Íslands.
Tónninn er settur frekar snemma í myndinni þar sem áhrif stríðs á börn koma meðal annars fram í viðtali við strákinn sem situr í biðsal Keflavíkurflugvallar. Hann segir til dæmis frá andláti ömmu sinnar og brosir þegar hann segist nú vera „mínus ein amma“ en síðar í myndinni segist hann sakna mikið.
Úkraínsk kona lýsir því einnig við samlanda sína, sem allir eru búsettir við Ásbrú, í mikilli geðshræringu að börn í Úkraínu séu nú farin að sjá muninn á loftárásum og stórskotaliðsárásum.
Íbúarnir sýna engu að síður mikinn húmor og mikla þrautseigju þrátt fyrir erfiðar aðstæður og fá einnig að kynnast íslenskum náttúruöflum þegar eldgos gýs á Reykjanesskaga.
Temporary Shelter er einstaklega vel gerð stríðsheimildarmynd fyrir þjóð, eins og Ísland, sem þekkir lítið til ástandsins í Úkraínu. Fólkið þaðan sést vinna og rölta um íslenskt landslag og er stríðshljóðum, eins og hljóð frá þyrlum eða orrustuþotum, snilldarlega komið fyrir í bakgrunn til að gefa friðsælustu þjóð heims örlitla innsýn inn í líf stríðshrjáðra landa.