Saga Þjóðhátíðar nær aftur til ársins 1874 þegar hátíðin var haldin í fyrsta skiptið, þá til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar.
Frá árinu 1901 hefur Þjóðhátíð verið haldin árlega í Herjólfsdal, fyrir utan fyrstu tvö ár fyrri heimsstyrjaldarinnar (1914 og 1915). Lengi vel héldu íþróttafélögin Týr og Þór hátíðina til skiptis, Þór á slétttölu ári og Týr á oddatölu ári.
Í lok ársins 1996 voru íþróttafélögin tvö sameinuð undir ÍBV sem hefur staðið fyrir hátiðinni síðan.
Dagskrá hátíðarinnar er alltaf mjög þétt og fjölbreytt. Þjóðhátíð er sett formlega við hátíðlega athöfn á föstudeginum þó fjörið hefjist strax á fimmtudeginum þegar Húkkaraballið er haldið.
Alla helgina er dagskrá fyrir börnin yfir daginn og svo kvöldvaka á sviðinu í dalnum á kvöldin. Skemmtunin heldur svo áfram langt inn í nóttina. Kvöldvakan á föstudeginum endar með brennu og kvöldvakan á laugardeginum með flugeldum. Á sunudagskvöldinu endar hún svo á hinum sívinsæla brekkusöng áður en kveikt er á blysunum.
Mikil eftirvænting ríkir yfir því hvaða atriði verða á hátíðinni. Þau atriði sem hafa verið tilkynnt eru Bríet, Stjórnin, Friðrik Dór, Klara Elias, XXX Rotweiler, Una Torfa, Jóhanna Guðrún, Diljá og Jón Ólafsson ásamt gestum (Eyfi, Björn Jörundur, Daníel Ágúst og Hildur Vala).
Þá má ekki gleyma Emmsjé Gauta sem samdi þjóðhátíðarlagið í ár Þúsund hjörtu.