i glo+indi var bókstaflega stofnað daginn fyrir bankahrunið,“ segir Helga Ólafsdóttir, einn af eigendum og yfirhönnuður fyrirtækisins er hún rifjar upp upphaf ferðalag þessa farsæla hönnunarfyrirtækis sem hefur nú afrekað það að framleiða nítján fatalínur á níu árum. Helga hafði verið að vinna við hönnun og vöruþróun á Íslandi, í Danmörku og Bretlandi fyrir stór og reynslumikil fyrirtæki í sex ár þegar hugmyndin að iglo+indi varð til. Það kom fljótt í ljós að reynslan sem Helga tók með sér að utan var henni afar dýrmæt þar sem Ísland var komið skammt á veg í að framleiða og koma á legg heilu línunum með þessum hætti. Segir Helga litla fyrirtækið sitt hafa rutt margar leiðir á þeim áratugi sem að það hafi verið starfrækt. „Þegar sonur minn fæddist fannst mér vanta flott föt á börn, og þá sérstaklega stráka. Ég byrjaði því að að hanna á hann og í framhaldinu var fyrirtækið stofnað.“ Þessari viðbót við kannski takmarkaðan markað á þeim tíma var vel tekið af íslenskum foreldrum og gekk því strax vel að selja vöruna. Í dag rekur Helga tvær verslanir hér á landi ásamt netversluninni www.igloindi.is.
Vörurnar komnar í 110 verslanir
Helga segir fámennt en frábært teymi sitt sem innheldur einungis fimm konur að sér undanskilinni vinna gríðarlega öflugt starf. „Við hönnum og framleiðum tvær stórar línur á ári en erum í raun alltaf að vinna í þremur línum á sama tíma og því mikið í gangi hverju sinni en við hönnum um það bil þrjú hundruð nýjar vörur á hverju ári. Framleiðslan okkar fer öll fram í Portúgal og gæðin eru óaðfinnanleg.“ Helga segist hafa lagt mikla vinnu í að finna réttan framleiðanda sem hentaði gildum fyrirtækisins en um er að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfa sig í að framleiða hágæða barnaföt. 80% línunnar eru úr lífrænni bómull en það segir Helga hafa skipt sig máli. „Við erum í daglegu sambandi við þessa aðila ásamt því að við heimsækjum þá nokkrum sinnum á ári og því náið og gott samstarf þar á ferð. Í Portúgal er einnig vöruhús iglo+indi en þaðan fara allar vörur sem fara í al- þjóðasölu en í dag fást vörur iglo+indi í 110 verslunum í yfir tuttugu löndum.
Mikilvægi samskiptamiðlanna
„Það tók okkur nokkur ár að byggja upp ferla þannig að við yrðum samkeppnishæf á erlendum markaði en við erum búin að selja vöruna okkar erlendis núna í fjögur ár.“ Að sögn Helgu skiptir mestu máli að finna réttu sölu- og samstarfsað- ilana erlendis en stærsti markaðurinn þeirra í dag er Mið-Evrópa. „Við förum á sýningar tvisvar á ári á nokkrum stöðum í Evrópu; Florens, París, Amsterdam, Kaupmannahöfn og Þýskalandi en líklega munum við næst sýna í Japan og svo erum við að skoða Bandaríkin og Ástralíu.“ Helga segir allar stækkanir þurfa að gerast á skynsamlegum hraða þó svo að íslenski krafturinn og óþolinmæðin sem kemur út frá smæðinni hér á landi geri það að verkum að hún vilji sjá stundum sjá hlutina gerast hraðar. „Barnafatamarkaðurinn er mjög skemmtilegur og þótt hann sé stór eru allir mjög nánir. Við vinnum með öllum stærstu tímaritunum og stílistunum í okkar bransa en einnig vinnum við með mörgum mjög flottum „influenserum“ á Instagram en samfélagsmiðlar eru orðnir mjög stór hluti af markaðsstarfinu okkar.“
Stórstjörnur vekja athygli á vörunni
Helga segir mikilvægt fyrir fyrirtækið að vera virkt á samfélagsmiðlunum því það sé góð leið til að tengjast fólki allstaðar að úr heiminum, mögulegum viðskiptavinum, þekktum einstaklingum, verslunum og samfélagsmiðlastjörnum. „Við höfum til að mynda tengst fyrirsætunni Coco Rocha og erum í beinu sambandi við hana sjálfa. Hún er mikill aðdáandi iglo+indi og „taggar“ okkur þegar hún birtir myndir af dóttur sinni í fötunum okkar og sendir okkur myndirnar. Við fáum einnig fyrirspurnir frá þekktum einstaklingum að fyrra bragði sem er mjög skemmtilegt og hjálpar okkur að vekja athygli á merkinu. Kúnninn okkar er virkur á samfélagsmiðlum og fær mikinn innblástur þaðan.“ Nokkrar stórstjörnur eru í hópi viðskiptavina iglo+indi en má þar nefna Kardashians, Matthew McConaughey, Beckham-fjölskylduna og Jamie Oliver. Helga segir gríðarleg verðmæti fólgin í því að stjörnur á borð við þessar tengi sig merkinu og sýni því athygli og áhuga. „Á hverju tímabili vinnum við með þekktu fólki alls staðar að úr heiminum og gefum föt. Hinsvegar greiðum við ekki á annan hátt fyrir umfjallanir, hvorki á samfélagsmiðlum né í blöðum,“ segir Helga. Hún segist kjósa heiðarlega umfjöllun og að fólk heillist raunverulega að vörunni og að það geti talað af reynslu um þær. „Vöxtur okkar á Instagram og áherslan á að búa til fallegan glugga inn í heim iglo+indi hefur líka haft jákvæð áhrif á sölu og hjálpað okkur að vekja athygli á merkinu út um allan heim.“
Áskorun að vera ekki í Evrópusambandinu
Að baki meðbyr og velgengni liggur þó gríðarleg vinna og þegar Helga er spurð út í þær hindranir sem að hafa mætt þeim liggur ekki á svari. „Mesta áskorunin hefur án efa verið að að selja vöruna okkar erlendis. Það er svo litla reynslu að finna hérlendis á því sviði. Helsta hindrunin hefur því verið að vera ekki í Evrópusambandinu þegar mesta salan okkar er í þeim löndum sem og framleiðslan. Bæði er þekking og reynslan á rekstri hönnunarfyrirtækja hér lítil og svo hefur einnig reynst erfitt að vera með óstöð- ugan gjaldmiðil.
Fjölskylduvænt vinnuumhverfi
Helga segist alltaf hafa sett sér skýr markmið og verið með sterka sýn. „ Ég er rosalega ákveðin og metnaðargjörn og sama hvað þá hefur aldrei hvarflað að mér að gefast upp.“ Helga á sjálf þrjú börn og hefur því lagt mikið upp úr því að skapa fjölskylduvænt vinnuumhverfi fyrir sig og sína starfsmenn. Hún segir börnin einnig veita gríðarlegan innblástur sem og sköpunargleði þeirra og hræðslu og hömluleysi. „Þau sjá aðeins möguleika og tækifæri og láta ekkert stoppa sig.“ Helga segir starfsfólk sitt mjög metnaðarfullt og að hún treysti því og gef því svigrúm til að vinna sjálfstætt og skapa. „Það er ekkert „micromanagement“ í gangi. Við styrkum og styðjum hvert annað þegar þarf og það skilar sér í miklum krafti og þakklæti.“ Bandaríkjamarkaður næstur Spurð um næstu skref iglo+indi segir Helga fókusinn nú vera á erlendu söluna. „Vaxtartækifærin sem við erum að horfa á er að stækka í Mið-Evrópu, Asíu og fara inn á Bandaríkjamarkað. Eftir ár verður fyrirtækið 10 ára og því ætlum við að fagna með því að gera eitthvað skemmtilegt fyrir og með viðskiptavinum okkar.“ Helga segir að hún og hennar fimm manna teymi beri sig gjarnan saman við sænskt merki sambærilegt sínu en þar starfa fjörutíu manns. „Við gefum samt ekkert eftir og viljum komast á sama stað og þau og vonandi ennþá lengra.“