Hinn kunni veiðimaður Sigurður Héðinn, sem í laxveiðiheiminum er gjarnan kenndur við sína frægustu flugu Hauginn og kallaður Siggi Haugur, hefur nú gefið út sína þriðju veiðibók. Í fyrra kom út bókin Sá stór, sá missti og sá landaði og fyrir tveimur árum kom út bókin Af flugum, löxum og mönnum .

Í nýju bókinni, Veiði, von og væntingar , er farið vel yfir ólíka veiðitækni eins og til dæmis hvernig á að veiða andstreymis, hvernig á að veiða með gárutúbu og hvernig best er að bera sig að þegar mikið vatn er í ánni. Einnig er farið nákvæmlega yfir það hvernig setja eigi í og landa laxi. Að sjálfsögðu fylgja skemmtilegar veiðisögur, svona mátulega ýktar. Þá eru í bókinni uppskriftir að meira en 50 ómissandi veiðiflugum. Sól Hilmarsdóttir myndskreytir bókina, sem gefin er út af bókaforlaginu Drápu og lýst sem hinni fullkomnu bók fyrir laxveiðifólkið.

Grípum stuttlega niður í kafla nýju bókinni, þar sem Sigurður Héðinn fjallar um gárutúbur :

Ég er oft spurður að því hvenær ég myndi ráðleggja mönnum að nota gárutúbur . Hvaða aðstæður í veðri og vatni henti best.
Mitt ráð kemur mönnum og konum oft á óvart því að það er einfalt; einfaldlega að nota gárutúbuna sem mest. Ástæðan fyrir þessu svari er sú að þetta er einhver skemmtilegasta veiðiaðferð sem hægt er að nota og einhver sú skilvirkasta. Hvað það er sem gerir gárutúbuna svona fengsæla get ég ekki fullyrt um en ef þetta er gert rétt er þetta árangursríkasta veiðiaðferðin, að mínu mati.

Auðvitað eru bestu aðstæðurnar þegar hiti lofts og vatns fara saman, þ.e. þegar lofthiti er tveimur til þremur gráðum hærri en vatnshitinn. Þetta er þó ekki algilt en gott viðmið og svona algeng þumalputtaregla. Hins vegar getur þetta einnig brugðist og þá gildir þessi regla ekki.

Síðastliðið haust hringdi í mig einn vinur minn sem var að veiða í Hrútafjarðará um miðjan september og áin köld og í bullandi flóðum, eiginlega í algjöru kakói, og lofthiti ekki tvær gráður. Hann var alveg týndur og við það að gefa upp alla von. Hann væri búinn að reyna allt! Ég spurði hvort hann væri búinn að reyna gáruna. Nei, var svarið. Upphófust þá miklar umræður um þetta milli okkar og hann hafði enga trú á að fara að gára við þessar aðstæður. Ég sagði á móti að hann hefði engu að tapa, það gerðist ekkert ef þetta skilaði engu. Hann hætti að mótmæla og sagðist ætla að reyna að gera eins og ég segði. Hálftíma seinna hringir hann óðamála og ég heyri að hann hafi fengið eitthvað eða eitthvað hafi gerst. Hann ryður úr sér á einhverju óskiljanlegu máli en ég skildi að hann fékk tvo á „ helv .... míkró -gáruna, þetta er geggjað og algerlega ótrúlegt!“ Það besta við þetta var að þetta voru fyrstu fiskarnir hans á gáruna.

Þessi litla saga segir að gáran virkar við allar aðstæður og kemur manni sífellt á óvart, þ.e. hvenær hún skilar og hvenær ekki. Mín skoðun er, og ég byggi hana á reynslu þar sem ég hef margoft horft uppá þetta, að þegar það kemur litur í ána vegna snöggra breytinga fer fiskurinn nær yfirborðinu en sunkar sér ekki niður á botn. Ég tel að fiskurinn vilji vera þar sem ljóssins gætir, eða réttara sagt að honum líði illa í algjöru myrkri þar sem hann hefur ekki hugmynd um hvað er að gerast í kringum hann. Ég tel það vera mistök, þó að það komi litur í ána, að fara að sökkva flugunni, þ.e.a.s. að fara að nota sökkvandi enda og þungar túbur. Betra er að veiða ofarlega í vatninu þar sem fiskurinn er. Ef menn vilja koma flugunni niður tel ég best að lengja tauminn og svo nota þungar flugur í stað þess að nota sökkenda.