Þýski lúxusbílaframleiðandinn býður nú í fyrsta skipti upp á hybrid-tækni í hinni nýju E-línu. Lúxusbílaframleiðandinn í Stuttgart sendir til leiks E 300 BlueTEC Hybrid með tvinn aflrás.

Annars vegar er 4 strokka, 2,2 lítra dísiltúrbóvél sem skilar 204 hestöflum og togið er alls 500 Nm og hins vegar 20 kW rafmótor sem gefur bílnum aukaafl og tog á sama tíma.

Bíllinn er aðeins 7,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Eyðslan er aðeins frá 4,2 lítrum á hundraðið sem er mjög góð sparneytni miðað við þetta stóran bíl. Koltvísýringslosun er aðeins 109 g. Rafmótorinn er nettur og léttur og þyngir ekki bílinn.

Þó nokkrar útlitsbreytingar hafa verið gerðar á nýjum E-Class og má þar nefna nýjan framenda sem gefur bílnum sérlega kraftmikinn en um leið fágaðan svip. Díóðudagljósin gera einnig mikið fyrir framendann og ekki síður stór Mercedes-Benz stjarna í miðju grillinu. Díóðuljós með ljósþráðum eru komin að aftan ásamt endurhönnuðum stuðara og púststútum sem setja líka sportlegri svip á bílinn en áður. Útlitið á E-Class er afar vel heppnað þar sem straumlínulagaðar línur spila stórt hlutverk og gerir það að verkum að bíllinn státar af óvenjulítilli loftmótstöðu, aðeins 0,25 sem er það lægsta í flokki lúxusbíla í þessum stærðarflokki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .