Volvo er að leggja mikið upp úr losunaraðgerðum og reiknar með að þrefalda framleiðslugetu sína á rafbílnum. Volvo hefur lýst því yfir að fyrirtækið muni senda frá sér einn rafbíl á ári næstu fimm árin. Volvo C40 Recharge er laglegur bíll og sver sig sannarlega í Volvo-ættina með útliti sínu bæði að innan og utan. Það er mikill svipur með honum og XC40 Recharge að framan en þaklínan hallar meira að aftan í C40 og gerir hann sportlegri. Það er coupe-yfirbragð yfir hönnuninni með þessa hallandi þaklínu. Bíllinn er því vígalegur á velli og sker sig svolítið úr.
Umhverfisþættir spila stóra rullu
Hönnunin að innan er falleg en látlaus. Það er ekkert verið að flækja hlutina of mikið frekar en fyrri daginn hjá Volvo. Allt er frekar mínímalískt og ekkert óþarfa prjál. Upplýsingaskjárinn er þægilegur og sér um allt afþreyingar- og upplýsingakerfi með innbyggðri Google-þjónustu sem bætir akstursupplifunina. Umhverfisþættir spila stóra rullu í innanrými bílsins. Þar er allt að mestu úr endurvinnanlegum efnum og ekkert leður eða dýraafurðir notaðar samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Volvo C40 er byggður á sama CMA-undirvagni og XC40 og er svipaður að stærð. Þrátt fyrir hallandi þakið er farangursrýmið það sama og í XC40, eða 413 lítrar.
Allt að 444 km drægi
Bíllinn er prýðilegur í akstri. Það þarf ekki að ýta á takka til að ræsa bílinn heldur stígur maður bara á bremsuna og setur í Drive og þá er bíllinn kominn í gang. Nú, eða bakkgír ef bakkað er. Aksturseiginleikar bílsins eru mjög góðir. Fjöðrunin er nokkuð mjúk og stýringin fín. Bíllinn liggur vel og er meðfærilegur í akstri. Þéttleikinn er nokkuð mikill og lítið sem ekkert veghljóð heyrist inn í bílinn. Volvo C40 er fjórhjóladrifinn og stendur sig vel á malarvegum jafnt sem malbikinu. Það er kraftur í þessum snaggaralega bíl og hann er aðeins 4,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Tveir 150 kW rafmótorar knýja bílinn áfram og skila alls 408 hestöflum. Togið er 660 Nm og hámarkshraðinn er bundinn við 190 km/klst. Drægið er allt að 444 km á rafmagninu samkvæmt WLTP-staðlinum. Rafhlaðan er 78 kWst. Hámark hleðslugetu er 150 kW, sem þýðir að hægt er að hlaða hann í 80% á 40 mínútum. Dráttargeta bílsins er 1,8 kg.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins frá 30. júní.