Ritz-Carlton hótelkeðjan hefur opnað nýtt lúxushótel á Maldíveyjum í Indlandshafi. Hótelið er á Fari-eyjaklasanum sem er nokkuð frá Malé, höfuðborg landsins, þar sem alþjóðaflugvöllurinn er. Einungis er hægt að fara til Fari með sjóflugvél eða bát og tekur ferðalagið með flugvél um 10 mínútur en 45 mínútur með hraðbát.
Hótelið, sem opnaði í byrjun júní, er allt hið glæsilegasta og samanstendur af glæsihýsum, sem eru frá 150 til 1.500 fermetrar. Sum hýsin eru á eyjaklasanum sjálfum en um 40 þeirra eru byggð á stöplum úti á hafi og mynda sporöskjulaga hring en í miðju hans er stór heilsulind. Einkasundlaugar fylgja hverju hýsi og brytar sjá um gestum vanhagi ekki um neitt. Á hótelinu eru sjö veitingastaðir og verslunarkjarni, þar sem helstu lúxusvörumerki heims eru seld.
Vikan Ritz-Carlton Maldives kostar frá 1,7 til 6,9 milljóna króna. Er þá miðað við gistingu fyrir tvo í ágúst. Innifalið í verðinu er léttur morgunverður.
Maldíveyjar eru um 400 kílómetrum suðvestan við Indland. Þær samanstanda af 1.192 eyjum og eru 192 þeirra byggðar. Maldíveyjar, sem fengu sjálfstæði frá Bretlandi árið 1965, er minnsta land Asíu og það fámennasta en tæplega 400 þúsund manns búa á eyjunum. Ekki nóg með það þá er landið það lægsta í heimi því meðalhæð yfir sjávarmáli er einungis 1,5 metri og hæsti punktur eyjaklasans er aðeins 2,4 metrum yfir sjávarmáli.