Jólaunnandinn Lárus Blöndal, betur þekktur sem Lalli töframaður, hefur stimplað sig inn sem einn færasti og skemmtilegasti jólasveinn landsins, og mögulega sá dýrasti. Hann leggur alúð í að veita sem allra bestu upplifun áhorfenda, þar á meðal sérsniðnum jólasveinabúning, förðun og sérstökum jólasveinagítar.

„Það er heljarinnar pakki sem fylgir því að að tileinka sér þetta hlutverk. Verandi skemmtikraftur þá hef ég séð mikið af jólasveinum og það einfaldlega ræðst af þeim hvort jólaböllin eru vel heppnuð eða ekki. Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég ákvað að kafa ofan í þennan heim er sú að mig langar að hækka kröfurnar sem gerðar eru til jólasveina.“

Sjá einnig: Jólasveinninn ekki ræddur heima

Lárus hefur verið sjálfstætt starfarandi listamaður frá því að hann hætti hjá Borgarleikhúsinu fyrir þremur árum. Hann segist ekki hafa stefnt að því að gerast jólasveinn enda komi hann fram sem Lalli töframaður á ýmsum jólaskemmtunum. Hins vegar hafi vinir og fólk í leit að jólasveini einfaldlega gert ráð fyrir að hann væri tilbúinn til að taka þetta hlutverk að sér. „Þessu var eiginlega troðið upp á mig,“ segir Lárus.

Lalli töframaður - jólasveinn
Lalli töframaður - jólasveinn
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Erfiðast að komast ekki á Barnaspítalann

Vegna sóttvarnaráðstafana féllu flestar jólaskemmtanir niður um síðustu jól. Lárus viðurkennir að Covid-faraldurinn hafi verið erfiður fyrir hann sem sjálfstæðan listamann. „Ef ég væri ekki svona lífsglaður, bjartsýnn og framsækinn þá væri ég örugglega kominn í andlegt þrot. Ég hef verið að minna mig á hvað lífið er dásamlegt, ég á fjögur dásamleg heilbrigð börn, konu og fjölskyldu og vini.“

Hann deyr hins vegar ekki ráðalaus og brást við með að gefa út tólf laga jólaplötu á vínyl sem ber heitið „Gleðilega hátíð“. Hugmyndin er að allir fjölskyldumeðlimir geta hlustað sáttir á plötuna við piparkökubakstur, að sögn Lárusar.

Þegar Viðskiptablaðið ræddi við Lárus í nóvember sagðist hann binda vonir við að komast á Barnaspítalann á aðfangadag sem hefur verið hefð hjá honum í tuttugu ár. Þar labbar hann á milli og sýnir krökkum töfrabrögð. „Það erfiðasta við síðustu jól var að missa af því að heimsækja þessa krakka.“

Heiðarlegasti töframaður heims

Leið Lárusar að skemmtanabransanum hófst með áhuga hans á töfrum. „Þegar ég var ungur, uppgötvaði ég listina að blekkja fólk á góðan hátt – að leyfa fólki að njóta þess að láta plata sig.“ Honum finnst þó óþægilegt að ljúga og bendir á það geti reynst erfitt fyrir töframann.

„Ég segi það stundum að ég sé líklega heiðarlegasti töframaður í heimi. Ég reyni að vera eins heiðarlegur og ég get í öllum töfrum sem er erfitt því töfrar eru í raun atvinnulygar.“

Lárus lýsir Lalla töframanni sem meiri grínista og skemmtikrafti fremur en töframanni. Sýningarnar hans eru samblanda af töfrum, uppistandi, sirkus, tónlist og ýmsu öðru. Hann rekur þessa nálgun til sýningarinnar Sirkus Skara Skrípó sem hann sótti í Loftkastalanum þegar hann var tólf ára gamall.

„Það hrundi allt hjá mér, á mjög góðan hátt. Ég ákvað þarna að ég ætlaði að fást við þetta í framtíðinni, vera með smá vitleysu, leika töfrabrögð og vera fyndinn.“

Lárus gaf nýlega út bókina Skemmtikrafturinn, sem hann skrifaði með trúðnum Wally. Í henni er að finna ráð fyrir krakka og fullorðna um hvernig sé best að stíga sín fyrstu skref sem skemmtikraftur og töframaður. Í bókinni er rætt um hvernig eigi að setja upp sýningar, haga sér uppi á sviði ásamt því hvernig best sé að búa til karaktera.

Fullorðinsútgáfan af Lalla töframanni á kabarett sýningum

Kosturinn við töfrabakgrunninn er að Lárus getur sýnt listir sínar hvar og hvenær sem er og gert það einn. Þetta kom sér vel fyrir í faraldrinum en Lárus setti upp einleik í Tjarnabíó. Einföld og ódýr uppsetning gerði honum kleift að sýna listir sínar á sviði þó að einungis mætti selja lítinn hluta af sætum.

Lárus er þó einnig hluti af Reykjavík Kabarett, fullorðinssýningu sem hann setti á laggirnar ásamt Margréti Erlu Maack fyrir tæplega fimm árum. „Á Kabarett-sýningunum kemur fram fullorðinsútgáfan af Lalla töframanni. Það hefur veitt mér mikla listræna útrás að gera töfrabrögð á nærbuxunum.“ Reykjavík Kabarett hefur ekki verið með sýningu frá því að faraldurinn hófst en Lárus fullvissar blaðamann um að hópurinn muni snúa aftur á rétta augnablikinu.

Vínyl platan Gleðilega hátíð eftir Lalla töframann
Vínyl platan Gleðilega hátíð eftir Lalla töframann
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Vínyl platan Gleðilega hátíð eftir Lalla töframann.

Bókin Skemmtikrafturinn
Bókin Skemmtikrafturinn
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Bókin Skemmtikrafturinn eftir Lalla töframann og trúðinn Wally.

Lárus tekur við fyrirspurnum um bókanir á vefsíðunni toframadur.is .

Viðtalið við Lárus má finna í heild sinni í Jólagjafahandbók, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .