Kanadíska fyrirtækið Research In Motion (RIM) hefur sent frá sér byltingarkennt BlackBerry símtæki sem nefnist BlackBerry Pearl, segir í tilkynningu. Hönnun símtækisins er nýstárleg; það er mun smærra en eldri BlackBerry símtæki og býr yfir fjölmörgum nýjum eiginleikum. Símtækið er komið í sölu hjá Vodafone.

BlackBerry Pearl, sem er á stærð við hefðbundinn GSM síma, býr yfir fullkomnum tölvupóstsamskiptum, myndavél og er með stækkanlegt minni. Pearl er einnig með Media Player sem gerir viðskiptavini mögulegt að spila myndskeið og tónlistarskrár. Þá er mögulegt að setja lög inn í símtækið sem má nota sem hringitóna.

?BlackBerry tæknin hefur slegið í gegn hjá viðskiptavinum Vodafone enda býr hún yfir áður óþekktum möguleika. Notendur BlackBerry eru sammála um að einn meginkostur tækninnar sé sá hversu mikinn tíma hún spari þeim í vinnu því þeir geta tekið á móti, svarað og skoðað tölvupóst og viðhengi óháð stað og stund,? segir Gísli Þorsteinsson hjá Vodafone.

?Það kemur því ekki á óvart hve útbreidd og vinsæl tæknin er hjá farsímanotendum. Nú þegar eru um nokkrar milljónir sem nota BlackBerry dag hvern um heim allan en gera má ráð fyrir að þeim haldi áfram að fjölga ört,? segir Gísli.