Á HönnunarMars breyttu hönnuðirnir Tanja Levý og Jökull Jónsson úr Studio Pluto ávaxta- og grænmetisdeild Krónunnar á Granda í litríkt og lifandi sýningarrými undir nafninu Frískleikarnir. Verkefnið var hluti af sýningunni Fruitful Futures ii og ætlað að bjóða börnum og fjölskyldum í skemmtilegt og fræðandi ferðalag um heim ávaxta og grænmetis.
Í sýningunni komu hönnuðirnir upp fjórum stöðvum með leikjum og fróðleik og var slóðinn á milli þeirra hannaður sem hluti af heildarupplifuninni. Markmiðið var að skapa jákvæða tengingu barna við hollustu, vekja áhuga á ferskvöru og minna á mikilvægi foreldra í mótun góðra matarvenja.
Tanja og Jökull, sem eru bæði hönnuðir og foreldrar, nálguðust verkefnið með áherslu á upplifun, leik og þátttöku. Þau nýttu reynslu sína af rýmis- og upplifunarhönnun til að búa til sýningu þar sem hollusta varð að ævintýri – og tókst að laða að fjölskyldur sem annars hefðu kannski ekki tengt matvöruverslun við hönnun eða leik.

Hvernig kviknaði hugmyndin að Frískleikunum og hvernig þróaðist hún í samstarfi við Krónuna?
Krónan hafði samband við okkur í Studio Pluto með ósk um að gefa börnum tækifæri til þess að kynnast hollri og góðri fæðu á skemmtilegan hátt. Hugmyndin okkar var að skapa leikandi og fræðandi upplifun fyrir börn og vekja athygli þeirra á töfrum og kostum ávaxta og grænmetis. Við hönnuðum fjórar stöðvar sem dreifast um ávaxta- og grænmetisdeildina. Þannig verður til ferðalag um deildina, þar sem börn fá að leysa einfaldar þrautir, fræðast um holla fæðu og virkja þau sem þátttakendur í innkaupunum. Útkoman varð Frískleikarnir.
Krónan var frábær samstarfsaðili og tók vel okkar hugmyndir, við upplifðum mikið traust frá þeim. Það var virkilega ánægjulegt fyrir okkur að taka þátt í þessari vegferð, sérstaklega þar sem við erum nýbakaðir foreldrar og okkur er umhugað um þetta málefni.
Okkur þótti mikilvægt að athygli barnanna væri á umhverfið og út á við en ekki á skjám, svo við ákváðum að notast ekki við stafræna miðla. Við lögðum áherslu á að örva skynfærin með mismunandi litum og áferðum, með skemmtilegum leikjum og gagnvirkri upplifun.
Þið talið um fjórar stöðvar og sérmerktan slóða – getið þið lýst nánar hvernig þetta ferðalag um „vávexti og vænmeti“ lítur út?
Þegar gengið er inn í verslunina, tekur Plinko leikurinn á móti gestum Krónunnar. Krónupeningur er settur efst í spilið, látinn detta niður um fjölmarga pinna þar til hann endar í einu af fimm hólfum sem merkt eru ávöxtum. Börnum gefst þá tækifæri að grípa sér þann ávöxt sem peningurinn lendir á og njóta á meðan á búðarferðinni stendur. Þegar slóðinni er fylgt að næstu stöð taka á móti þeim tvö snúningspúsl. Í snúningspúslinu geta börn sett saman mismunandi tegundir af ávöxtum og grænmeti og skapað sína eigin vávexti og vænmeti. Þriðja stöðinn er falin innan um grænmetiskassa í kælinum. Þar má finna skynjunarkassa þar sem krakkar mega stinga hendinni inn og giska hvaða ávöxtur eða grænmeti leynist þar inni. Á lokastöðinni er myndaveggur þar sem börnin fá að vera partur af fjörum grænmetis- og ávaxtapoka.
Hvernig nálguðust þið það að sameina leik, fræðslu og hönnun í þessu verkefni?
Við í Studio Pluto leggjum áherslu á leik og gagnvirka hönnun í okkar verkum i og fyrir þetta verkefni þótti okkur tilvalið að finna barnið innra með okkur. Leikur hvetur okkur til þess að vera forvitin, gera tilraunir og uppgötva nýja hluti. Að sameina leik og hönnun getur skapað jákvæða upplifun og skemmtilegt umhverfi til að fræðast. Með gagnvirkri upplifun og leikjum er hægt að fanga athygli þátttakanda og setja fræðslu í skemmtilegan búning.
Hvað var mest krefjandi í hönnunarferlinu – og hvað kom ykkur mest á óvart?
Þar sem við smíðuðum allt frá grunni, þá var mest krefjandi að fá allt til að virka eins og við sáum það fyrir okkur. Það er ekki bara hægt að kaupa snúningspúsl út í búð, heldur þurftum við að finna upp okkar eigin leið til að fá púslið til að snúast. Það sem kom okkur mest á óvart í ferlinu var hversu vel það gekk fyrir okkur með góðu skipulagi að sameina það að vera nýbakaðir foreldrar en á sama tíma vinna þetta verkefni. Gott veganesti fyrir framtíðina og góð áskorun.
Hverju vonist þið til að börn og foreldrar þeirra – taki með sér úr heimsókn á sýninguna?
Fyrst og fremst vonumst við til þess að upplifunin opni augu ungu kynslóðarinnar á hollustu og mikilvægi hollrar fæðu. Auk þess viljum við búðarferðin verði að skemmtilegri og fræðandi upplifun fyrir alla fjölskylduna og hvetji börnin til að taka virkan þátt í innkaupunum. Vonandi opnar þessi upplifun á samtal innan fjölskyldunnar um mikilvægi hollrar fæðu.
Hvernig teljið þið hönnun geta haft áhrif á matarvenjur og viðhorf til hollustu?
Við teljum að hönnun og skapandi nálgun á hvaða viðfangsefni sem er, geti haft áhrif á viðhorf og hegðun. Hönnun er frábær vettvangur til þess að rannsaka, skapa samtal eða vekja athygli á ákveðnum málstað eða viðfangsefni. Með því að setja matarvenjur og viðhorf til hollustu í skemmtilegt og skapandi samhengi, teljum við að hægt sé að fanga athygli fólks og barna, til þess að staldra við og virða viðfangsefnið fyrir sér í nýju ljósi.
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að svona verkefni gætu þróast áfram – gæti Frískleikunum jafnvel verið komið fyrir í fleiri verslunum?
Ein af áherslum Krónunar var einmitt að hafa í huga að verkefnið gæti farið á milli verslana. Við vonumst til að þetta verkefni fái að lifa áfram og verði sett upp í fleiri verslunum. Ein leið til að þróa svona verkefni áfram væri til dæmis að taka fyrir aðrar deildir með sömu nálgun og halda þannig áfram samtalinu um holla fæðu.