Bandaríski fréttamiðillinn Wall Street Journal hefur tekið saman lista yfir nokkra golfvelli sem eru fullkomnir fyrir tengifarþega.

Í greininni eru kylfingar hvattir til að eyða tímanum sínum frekar á golfvellinum nálægt flugvellinum í millilendingu í stað þess að bíða við flugvallarbarinn.

„Mundu bara að setja hanska, derhúfu og nokkra bolta í handfarangurinn þinn áður en þú leggur af stað. Vertu í þægilegum tvínota golf/gönguskóm og leigðu svo bara kylfusett þegar þú mætir á völlinn.“

Meðal þeirra golfvalla sem WSJ mælir með eru Bali Hai-golfvöllurinn í Las Vegas en ein af holum vallarins er nánast andspænis Harry Reid-alþjóðaflugvellinum. Bear Creek-golfvöllurinn í Dallas er einnig tilvalinn staður til að drepa tímann milli flugferða.

Fyrir þá sem eru að fljúga frá Bandaríkjunum til Evrópu með millilendingu á Íslandi er einnig hægt að skella sér á golfvöllinn við Korpu.

„Segjum sem svo að þú þurfir að millilenda á Keflavíkurflugvelli, rétt sunnan við heimskautsbaug. Frá maí til júlí er nánast stöðug dagsbirta á Íslandi sem þýðir að þú getur spilað golf á miðnætti og náð svo tengifluginu til Evrópu um morguninn. Golfklúbburinn við Korpu er í hálftíma keyrslu frá flugvellinum og samanstendur af 18 holum.“

Einhverjar upplýsingar virðast þó ekki alveg réttar í greininni en það tekur rúmlega 50 mínútur að keyra frá Keflavíkurflugvelli að Korpu, ekki hálftíma, og þrátt fyrir fallegt útsýni og góðar aðstæður við Korpúlfsstaðarvöll þá myndu tengifarþegar eflaust spara meiri tíma með því að spila við Keili eða Vatnsleysuströnd.