Söguþráður Senua‘s Saga: Hellblade II, væntanlegs tölvuleiks fyrir næstu kynslóð Xbox leikjatölvunnar, mun gerast á Íslandi á níundu öldinni.
Ninja Theory hefur birt myndband þar sem Tameem Antoniades, einn stofnenda og aðalhönnuður tölvuleikjaframleiðandans segist hafa þurft pásu eftir að vinnan við fyrsta leik seríunnar kláraðist. Hann ákvað að ferðast um heiminn og varð einstaklega hrifinn af náttúru Íslands.
Hann sneri aftur ásamt hönnunarteymi fyrirtækisins en þau höfðu samband við Sagafilm til þess að taka upp myndefni. Á tveggja vikna tímabili fóru þau á 40 tökustaði. Nokkrum mánuðum síðar sneri teymið svo aftur til Íslands svo að aðrir einstaklingar sem komu að leiknum gátu upplifað tilfinninguna sem fylgi því að vera í „svona sérkennilegu, fallegu og hættulegu landi“.
Þeir fengu svo fyrirtækið Quixel til að skanna ýmis lífbelti (e. biomes) fyrir grafískar teikningar sem verða notaðar í leiknum. Einnig voru þau í samstarfi við hljómsveitina Heilung sem tóku upp hljóðbúta úr íslenskri náttúru.
Amtpmoades segir að teymið hafi reynt að skapa níundu aldar útgáfu af Íslandi. Allt á að vera eins raunverulegt og mögulegt er, hvort sem það eru skógarnir, landslagið, eldingarnar, skýin, hljóð frá lækjum eða hvað annað.
Stefnt var að því að Hellblade II kæmi út fyrir jólavertíðina í ár en Microsoft, sem keypti Ninja Theory árið 2018, á enn eftir að staðfesta útgáfudag, samkvæmt frétt Venturebeat .