Samdráttur í bílasölu á síðasta ári nam um 42% miðað við sama tíma árið á undan. Kostnaður vegna rafbíla tók miklum breytingum í byrjun árs 2024 þegar ívilnanir vegna greiðslu á virðisaukaskatti féllu niður. Þá settu stjórnvöld á 6 krónu gjald fyrir hvern ekinn kílómetra fyrir hreina rafbíla og 2 krónur fyrir tengiltvinnbíla.
Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, svarar spurningum um stöðuna á bílamarkaðnum.
Efnahagsumhverfið var þungt í fyrra, verðbólga og háir vextir. Eru fleiri skýringar á samdrætti í bílasölu árið 2024?
,,Fólk hefur minna á milli handanna þegar greiðslubyrði af húsnæðislánum og öðrum lánum hefur hækkað og er þá eðlilega í minni kauphugleiðingum. Það sem ég tel skorta hjá yfirvöldum er langtímasýn í gjaldamálum fyrir bifreiðar. Það er auðséð að rekstararumhverfi bílaumboða er ekki auðvelt þegar breytingar á innflutningsgjöldum bifreiða eru gerðar rétt fyrir áramót og svo að segja fyrirvaralaust. Eins og reynslan hefur kennt okkur þá er oft lítill fyrirsjáanleiki í efnahagsmálum á Íslandi og breytingar geta verið gríðarlega hraðar, fyrirtæki eiga þar af leiðandi erfitt með að gera áætlanir til lengri tíma. Þessi breyting sem var gerð á skattaívilnunum rafbíla um síðustu áramót hafði auðvitað áhrif á bílasölu, sér í lagi þar sem kílómetragjald var sett á rafbíla á sama tíma. Þetta skapaði neikvæða umræðu í samfélaginu sem átti ekki rétt á sér,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu.
Hvernig leggst nýja árið í þig og hvenær telur þú að bílasala taki við sér?
,,Við hjá Heklu erum mjög bjartsýn á að árið 2025 verði gott og bílasala verði betri en hún var árið 2024. Við teljum bæði uppsafnaða þörf hjá kaupendum og eins er útlit fyrir að umhverfið verði betra í kjölfar vaxtalækkana,“ segir Friðbert.
Hvað skýrir samdrátt í sölu rafbíla og hvernig heldur þú að salan muni þróast í ár?
,,Skyndiákvarðanir stjórnvalda og breyting á sköttum valda óvissu á markaði og það hefði verið hægt að standa að þessari gjaldttöku með miklu einfaldari og betri hætti. Við hjá Heklu erum bjartsýn á að vinsældir rafbíla muni aukast verulega á árinu enda eru þeir þrátt fyrir þetta enn hagkvæmastir í rekstri og frábærir á allan hátt. Innviðir hafa svo stórbatnað og hleðslustöðvar eru nú komnar út um allt land sem gerir akstur rafbíla áhyggjulausan,“ segir Friðbert ennfremur.
Nánar er fjallað um málið í Bílar, sérblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.