Kínverski rafbílaframleiðandinn Zeekr frumsýndi á dögunum jeppling sem fengið hefur nafnið Zeekr X. Bíllinn er aðeins 4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Bíllinn verður formlega frumsýndur á Bílasýningunni í Sjanghæ í apríl. Ekki eru nein hurðarhandföng sýnileg á myndum af bílnum en í hurðarbitum virðast vera takkar. Upphækkun gluggalínunnar frá miðri afturhurð vekur athygli og gefur bílnum sérstakan hliðarsvip.

Zeekr er í eigu Geely sem einnig er eigandi Volvo. Gögn frá Zeekr sem lekið var á netið benda til þess að bílaframleiðandinn ætli að koma með bíla sína á markaði í Evrópu á næstu árum þótt það hafi ekki verið formlega gefið út. Nýi bíllinn er byggður á SEA-undirvagninum, þeim sama og hjá EX30 og Smart #1 sem eru einnig væntanlegir.