Rún Ingvarsdóttir hefur verið ráðin til Orkuveitu Reykjavíkur í teymi sérfræðinga Samskipta- og samfélags, einingar sem heyrir undir forstjóra og sér um samskipta- og markaðsmál þvert á samstæðuna. Hún mun helst sinna upplýsingamálum og samskiptum við fjölmiðla fyrir Veitur, dótturfélags OR, og starfa þar sem samskiptastjóri. „Í því felst meðal annars að efla og bæta enn frekar samtal við íbúa og hagaðila og veita fræðslu. Auk þess mun ég koma til með að vinna að sjálfbærnimálum.“
Rún kemur til OR frá Landsbankanum þar sem hún starfaði undanfarin sjö ár sem sérfræðingur í samskiptamálum. Þar áður starfaði hún sem fréttamaður á fréttastofu RÚV frá árinu 2007. „Mér líkaði mjög vel bæði hjá Landsbankanum og RÚV, þar öðlaðist ég dýrmæta reynslu.“
Rún var fréttamaður á erlendu deildinni hjá RÚV en hún segist lengi hafa haft mikinn áhuga á alþjóðamálum. Hún stundaði framhaldsnám í alþjóðafræði við Berkeley-háskóla í Kaliforníu á árunum 2004-2006. „Það voru ómetanleg ár og æðislegt að búa í San Fransisco. Í tengslum við námið fékk ég tækifæri til að fara í starfsnám í þrjá mánuði hjá Sameinuðu þjóðunum í Santiago í Chile, sem var einstök upplifun. Suður- og Mið-Ameríka hafa verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér frá því að ég starfaði sem sjálfboðaliði í Kosta Ríka um tíma strax eftir menntaskóla.“
Rún á þrjár dætur á aldrinum 7- 13 ára, þær Lóu, Rut, og Fríðu, og er gift Daða Birgissyni tónlistarmanni. Hún segir tímann utan vinnu að mestu leyti fara í að njóta með fjölskyldunni. „Mig dreymir um að fara í langt ferðalag um Suður-Ameríku með fjölskylduna í að minnsta kosti nokkra mánuði. Það væri gaman að leyfa dætrum mínum að kynnast annarri menningu í lengri tíma en sem nemur nokkurra vikna sumarfríi.“
Nánar er rætt við Rún í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.