Aðalgeir Þorgrímsson hefur verið ráðinn forstöðumaður fjártækni hjá Símanum en þar mun hann leiða vöxt og þróun fjártæknilausna undir merkjum Símans Pay og Noona.

Undanfarin ár hefur Aðalgeir starfað sem rekstrarstjóri nýsköpunarfyrirtækisins Lucinity, en áður hjá RB þar sem hann sat í framkvæmdastjórn. Hann hefur áralanga reynslu af þróun fjártæknilausna, uppbyggingu viðskiptasambanda og skölun á rekstrareiningum, á Íslandi sem og erlendis.

Aðalgeir er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið MBA-námi frá Rotterdam School of Management í Hollandi.

Í tilkynningu frá Símanum segir að um 10 þúsund einstaklingar noti í dag kreditkort Símans Pay auk þess sem yfir 100 fyrirtæki hafi tekið nýtt fyrirtækjakort í notkun. Þá eru á annað hundrað þúsund virkir notendur að Noona-appinu, sem varð hluti af samstæðu Símans í fyrra.

„Við erum afar ánægð með að fá Aðalgeir til liðs við okkur en reynsla hans og þekking mun nýtast einkar vel í þeim kafla sem nú er að hefjast. Á sama tíma þakka ég Gunnari Hafsteinssyni fyrir frábær störf við uppbyggingu síðustu ára,“ segir María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans.