Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur ráðið Aðalstein Leifsson sem aðstoðarmann sinn. Aðalsteinn tekur til starfa 1. mars næstkomandi, að því er segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.

Aðalsteinn gegndi embætti ríkissáttasemjara á árunum 2020-2023. ‏Hann bauð sig fram í þingkosningunum í lok síðasta árs og var í þriðja sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

„Aðalsteinn er með mikla reynslu af alþjóðamálum og hefur meðal annars starfað áður fyrir utanríkisráðuneytið, unnið hjá utanríkisþjónustu ESB, verið sérfræðingur hjá EFTA í Brussel og auk þess að vera í yfirstjórn samtakanna í höfuðstöðvum EFTA í Genf,“ segir í tilkynningunni.

Aðalsteinn hefur verið lektor í Háskólanum í Reykjavík þar sem hann kenndi meðal annars áfanga um Evrópusambandið, Alþjóðviðskiptastofnunina (WTO) og fríverslunarsamninga og þjálfaði MBA-nemendur og meistaranema í lögfræði í samningatækni.

Aðalsteinn er stjórnmálafræðingur frá H.Í., er með masterspróf í stjórnmálum og hagfræði ESB frá London School of Economics and Political Science (LSE) og MBA-próf frá Heriot-Watt University.