Matvælafyrirtækið Bakkavör Group hefur tilkynnt um að Ágúst Guðmundsson muni hætta störfum sem forstjóri félagsins þann 31. október næstkomandi. Ágúst og bróðir hans Lýður, sem stofnuðu fyrirtækið fyrir 36 árum, munu áfram sitja í stjórn félagsins.
„Eftir 36 ár við stjórnvöllinn er ég ótrúlega stoltur af fyrirtækinu sem við höfum byggt upp og af fólkinu sem ég hef unnið með á þessum tíma. Á síðustu árum hefur styrkur og þrautseigja Bakkavarar sýnt sig og ég hef fulla trúa á að félaginu gangi vel til framtíðar,“ segir Ágúst.
Ágúst og Lýður eiga 50,15% hlut í Bakkavör í gegnum Carrion Enterprises Limited og Umbriel Ventures Limited, sem og Lixaner Co Limited.
„Stjórnarformenn þakka yfirleitt fráfarandi forstjórum með nokkrum kurteisum setningum en í þessu tilfelli dugir það í raun ekki. Stofnun og uppbygging Bakkavarar af hálfu Ágústs og bróður hans Lýðs, ásamt kollegum þeirra, ber öll merki glæsilegs frumkvöðlastarfs. Upp úr því hefur sprottið upp rekstur í fremstu röð með sterka markaðsstöðu og frábærum tækifærum,“ segir Simon Burke, stjórnarformaður Bakkavarar.
Mike Edwards hefur verið ráðinn eftirmaður Ágústs. Edwards hefur starfað hjá Bakkavör frá árinu 2001, þar af sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs (COO) frá árinu 2014.
Markaðsvirði Bakkavarar, sem var skráð í kauphöllina í London árið 2017, nemur 521,5 milljónum punda eða um 81,7 milljörðum króna. Gengi félagsins hefur fallið um 30% í ár.