Albert Þór Kristjánsson hefur tekið við stöðu forstöðumanns í upplýsingatækni og stafrænni þróun á fjármála- og rekstrarsviði og Rakel Másdóttir hefur tekið við stöðu verðstýringar- og verkefnastjóra á verslunar- og mannauðssviði hjá Samkaupum.
Þau hafa bæði þegar hafið störf hjá fyrirtækinu.
Rakel er með BA-gráðu í lögfræði og viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu og verkefnastjórnun. Áður starfaði Rakel sem deildarstjóri í Gerplu þar sem hún hélt utan um deild 600 iðkenda, 30 starfsmanna og þjónustaði um 1200 foreldra. Hún sá einnig um markaðssetningu, samskipti og aðra verkefnastjórnun. Þá hefur hún sinnt störfum fyrir BTM lögmenn.
Albert Þór kemur til Samkaupa frá Advania þar sem hann starfaði síðast sem verkefnastjóri hjá Veflausnum og leiddi stór verkefni í vefþróun. Áður starfaði hann sem tækni- og þjónustustjóri hjá Rekstrarlausnum Advania og veitti þar ráðgjöf og leiddi framþróun í tækniumhverfi lykilviðskiptavina. Albert er með sveinspróf í prentun og hefur lokið diplómanámi í margmiðlunarhönnun og samskiptum (e. multimedia design and communications).
„Það er því mikill fengur fyrir okkur að fá til öflugt fólk með fjölbreytta reynslu og menntun eins og Rakel og Albert Þór búa yfir. Meginverkefni Rakelar verður að taka við verðlagseftirliti og fylgja eftir verðstefnu fyrirtækisins, sem er bæði mikilvægt og krefjandi verkefni, ekki síst á verðbólgutímum. Albert mun vinna að því að bæta stafræna þjónustu fyrir viðskiptavini okkar, en stafræn þróun og aukin sjálfvirknivæðing skiptir sífellt meira máli í verslanarekstri á Íslandi,“ segir Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Samkaupa.