Sæplast er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir endurnýtanleg og endurvinnanleg ker og bretti sem notuð eru til flutninga, geymslu og framleiðslu á matvælum og einnig fyrir endurvinnslu. Þá framleiðir Sæplast einnig ýmis konar byggingavörur. Kerin eru seld um allan heim, en byggingavörur fyrirtækisins í gegnum byggingarvöruverslanir um allt land.
Spurður um tækifærin sem liggja hjá fyrirtækinu nefnir Arnar að varan gegni mikilvægu hlutverki í matvælaframleiðslu.
„Kerin okkar eru mikið notuð til flutninga, geymslu og framleiðslu á matvælum um allan heim. Þau eru þekkt fyrir framúrskarandi gæði, endingu og öryggi, t.d. endist hrávaran sem geymd er í okkar vörum mun lengur og er því öruggari en ella og þannig leggjum við okkar að mörkum við að auka matvælaöryggi í heiminum.“
Þá segir hann vöruna mjög umhverfisvæna en fyrirtækið hefur þróað endurvinnsluferli sem virkar með þeim hætti að þegar varan er búin að skila sínu ævistarfi þá er hún endurunnin og nýtt aftur í framleiðsluferlið í nýja vöru. En ævitími vörunnar er í kringum 10-15 ár.
Arnar útskrifaðist úr byggingartæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 1994 en í sumar lauk hann MBA gráðu frá sama skóla. Þá starfaði hann áður sem forstöðumaður markaðsþróunar hjá RPC – Sæplast en árið 2016 sameinaðist Sæplast RPC – Group. Þá segir hann fyrri reynslu og menntun muni koma til með að reynast honum vel í starfi.
„Það er allt að koma heim og saman ég hef góða reynslu af fyrirtækinu og er nýkominn úr námi sem mun nýtast mér vel í þessu starfi.”
Arnar hefur mikinn áhuga á útivist og nýtur þess að ganga á fjöll á sumrin en á veturnar fer hann á skíði, bæði hefðbundin og gönguskíði. Þar að auki stundar hann jóga og segir mikilvægt að huga vel að heilsunni. „Ég reyni að sinna líkama og sál til að halda sem bestri heilsu.”
Viðtalið birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.