Anna Katrín Einarsdóttir hefur gengið til liðs við ráðgjafafyrirtækið RATA. Hún hefur á undanförnum árum tekið þátt í verkefnum sem mótað hafa starfsumhverfi nýsköpunar og ferðaþjónustu. Hún hefur einkum sinnt verkefnum sem snúa að stefnumótun og byggðaþróun með sjálfbærni að leiðarljósi, auk þess að hafa starfað við opinbera nýsköpun.

Síðustu ár hefur Anna Katrín starfað sem sérfræðingur í Stjórnarráðinu, fyrst hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og nú síðast í ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar. Áður var hún verkefnastjóri hjá Stjórnstöð ferðamála við innleiðingu og framkvæmd forgangsverkefna í Vegvísi í ferðaþjónustu.

Hún er með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM), diplóma í mannauðsstjórnun og í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Háskóla Íslands.

„Ég er full tilhlökkunar að takast á við ný og spennandi verkefni á árinu 2023 undir regnhlíf RATA. Sérstaklega þar sem ég veit að ófáir vinnufundirnir verða teknir í sjósundi, það er fátt betra og góð leið til að efla nýsköpun og hrista aðeins upp í huganum,” segir Anna Katrín.

„Við erum þakklát fyrir að fá Önnu Katrínu í okkar raðir. Hún hefur styrkleika og reynslu sem mun styrkja RATA. Hún er stefnumiðuð, hugmyndarík og einstaklega góð í að tengja saman fólk, verkefni, ferla og málaflokka. Í okkar rekstri er það ein að grunnforsendum árangurs. Við bjóðum hana því velkomna í teymið og hlökkum til að vaxa enn frekar með henni,“ Hafdís Huld Björnsdóttir, framkvæmdastjóri RATA.

RATA er stofnað af Hafdísi Huld Björnsdóttur og Svövu Björk Ólafsdóttur. RATA sérhæfir sig í vinnustofum, stefnumótun, heilbrigðri vinnustaðamenningu og stuðningi við vistkerfi nýsköpunar.