Anna Kristín Kristjánsdóttir var kjörin formaður SÍA, Samtaka íslenskra auglýsingastofa, á aðalfundi samtakanna sem fram fór í gær. Fráfarandi formaður er Guðmundur Hrafn Pálsson frá Pipar/TWBA.

Ásamt henni voru kjörin í stjórn þau Sigríður Theódóra Pétursdóttir frá Brandenburg og Kristján Hjálmarsson frá Hér & nú. Til vara í stjórn var kosin Selma Rut Þorsteinsdóttir frá Pipar/TWBA.

Anna Kristín er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og hefur verið meðeigandi á Hvíta húsinu frá árinu 2015 og stjórnarformaður síðan 2017. Þar áður starfaði hún hjá Vodafone í 10 ár, sem forstöðumaður einstaklingssölu og forstöðumaður markaðsmála. Auk þess að hafa setið í stjórn SÍA undanfarið ár þá hefur hún verið í stjórn Félags atvinnurekenda, FA, síðastliðin fimm ár og er varaformaður samtakanna.

Sex auglýsingastofur eiga aðild að SÍA; Brandenburg, Ennemm, Hér & nú, Hvíta húsið, Aton JL og Pipar/TBWA. SÍA er samstarfsfélag Félags atvinnurekenda.