Anna Kristín Pálsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar gagnavers- og ofurtölvufyrirtækisins atNorth. Hún hefur þegar hafið störf hjá fyrirtækinu.

Þá mun Anna leiða vinnu við staðarval, hönnun og afhendingu nýrra gagnavera félagsins á Norðurlöndum.

„Skýjalausnir og útreikningar með ofurtölvum eru í mikilli sókn og þarfir viðskiptavina atNorth eru miklar til framtíðar. Þörfin á sjálfbærum lausnum er sömuleiðis aðkallandi og þar getur þjónustuframboð atNorth skipt sköpum,“ segir Anna Kristín.

Anna kemur til atNorth frá Marel þar sem hún hefur starfað frá árinu 2015. Hjá Marel gegndi hún ýmsum leiðtogastörfum, bæði í Evrópu og Norður- Ameríku. Nú síðast sem framkvæmdastjóri nýsköpunar samhliða því að leiða sölu- og þjónustustarfsemi félagsins sem framkvæmdastjóri Marel í Norður-Ameríku. Þá hefur hún einnig átt sæti í stjórnum fyrirtækja.

„Við bjóðum Önnu Kristínu hjartanlega velkomna í hópinn og hlökkum til samstarfsins við hana. Ráðning hennar styrkir þróunarsvið atNorth og hjálpar okkur að leiða þau mál inn í framtíðina,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth.

Anna Kristín útskrifaðist með M.Sc. í Global Production Engineering frá Tækniháskólanum í Berlín árið 2015. Þá er hún með B.Sc. gráðu í verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.