Anna Kristjánsdóttir hefur verið ráðin sem sjóðstjóri til SIV eignastýringar og kemur hún inn í kredit teymi félagsins. SIV eignastýring mun fljótlega sameinast ÍV sjóðum undir nafninu Íslensk verðbréf en félagið tilheyrir samstæðu Skaga.

Anna hefur umtalsverða reynslu á eignastýringarmarkaði en hún hefur starfað við stýringu skuldabréfa- og lánasjóða frá árinu 2002.

Síðastliðin 7 ár starfaði hún sem forstöðumaður skráðra og sérhæfðra skuldabréfa hjá Stefni þar sem hún leiddi þróun á sérhæfðum afurðum lána- og veðlánasjóða. Fyrir þann tíma var hún sjóðstjóri innlendra skuldabréfasjóða hjá Stefni um árabil en hún hóf ferilinn í Búnaðarbanka Íslands. Anna sat auk þess í stjórn Eikar fasteignafélags á árunum 2010 til 2013.

Anna hefur lokið meistaragráðu í fjármálum (M.fin) frá Háskóla Íslands auk þess að vera viðskiptafræðingur (B.sc) frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

„Það er okkur sönn ánægja að fá Önnu til liðs við okkur. Hún býr yfir víðtækri reynslu sem mun styrkja félagið enn frekar á þeirri spennandi vegferð sem framundan er. Anna gengur til liðs við öflugt kredit teymi félagsins þar sem við sjáum mikil tækifæri á innlendum kredit mörkuðum næstu misserin,“ segir Arnór Gunnarsson, framkvæmdastjóri SIV eignastýringar.

„Framundan er sameining SIV eignastýringar og ÍV sjóða undir nafni Íslenskra verðbréfa, sem mun skapa öflugt eigna- og sjóðastýringarfélag með 200 milljarða króna í stýringu. Með fjölbreyttu úrvali sjóða og sérhæfðri eignastýringu mun félagið veita viðskiptavinum sínum enn betri þjónustu og fjölbreytta fjárfestingakosti.“