Anna Sif Jónsdóttir hefur verið ráðin af stjórn Arion banka sem innri endurskoðandi bankans og mun hún hefja störf í haust. Hún kemur til Arion frá Kviku banka þar sem hún hefur starfað sem innri endurskoðandi frá árinu 2013. Greint er frá ráðningu hennar á heimasíðu Arion.
Anna Sif var þar áður fjármálastjóri Regins á árunum 2009-2013 og Landic Property Iceland, sem heitir nú Reitir, frá 2007 til 2009. Þá var hún sérfræðingur og verkefnastjóri hjá KPMG frá 2000 til 2006.
Anna Sif er með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og er viðskiptafræðingur (cand. oecon) frá sama skóla. Hún er löggildur endurskoðandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.