Arnar S. Gunnarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Öryggislausna OK en um er að að ræða nýtt svið innan tæknifyrirtækisins. Hann kemur til OK frá Controlant þar sem hann starfaði í fjögur ár og bar meðal annars ábyrgð á öryggis- og tæknimálum félagsins.
Áður starfaði hann sem innviðahönnuður hjá Arion banka og þar áður var hann tæknistjóri hjá Origo.
„Það er bæði spennandi og krefjandi verkefni að leiða nýtt svið Öryggislausna OK. Við ætlum að bjóða upp á öfluga ráðgjöf og byggja upp enn öflugra framboð í öryggislausnum. Við ætlum að veita þessum mikilvæga málaflokki aukið vægi til að styðja enn betur við okkar viðskiptavini og mæta auknum kröfum á heimsvísu,“ segir Arnar.
Arnar er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík auk fjölda alþjóðlegra vottana í öryggis- og tæknimálum. Hann hefur þá starfað við tækni- og öryggismál í yfir 20 ár.