Árni Helgason festi nýlega kaup á helmingshlut í Domusnova fasteignasölu og á félagið nú til helminga á móti Víði Arnari Kristjánssyni framkvæmdastjóra, að því er kemur fram í tilkynningu.

Árni hefur komið að stjórnun fyrirtækja í heildsölu, smásölu, iðnframleiðslu og á síðustu árum í fasteigna- og byggingageiranum. Hann starfaði hjá fasteignaþróunarfélagi í London á árunum 2004-2016 og fékkst þar við verkefni sem tengdust fasteignaþróun, byggingum og sölu fasteigna ásamt fjármögnun verkefna.

Árni sneri heim til Íslands frá London árið 2016 og hefur starfað við fasteignasölu á Íslandi síðan þá. Hann er löggiltur fasteignasali en er jafnframt með MA gráðu og kennararéttindi sem framhaldsskólakennari.

Að sögn Víðis Arnars, framkvæmdastjóra Domusnova, mun Árni styrkja rekstur og ásýnd fasteignasölunnar. Helstu verkefni Árna verði á sviði sölu- og markaðsmála ásamt því að sinna þróunarverkefnum innan fyrirtækisins.

Viðskiptablaðið sagði frá því í haust þegar Óskar Már Alfreðsson, meðeigandi hjá Domusnova til níu ára, seldi helmingshlut sinn í fasteignasölunni og lét af störfum.