Rekstrarfélagið ALDA Asset Management hefur ráðið Arnór Gunnarsson sem forstöðumann hlutabréfa og Þorkel Magnússon sem forstöðumann skuldabréfa. Fram kemur í tilkynningu að báðir hafi þeir mikla reynslu af fjármálamörkuðum og eignastýringu. Þeir voru áður forstöðumenn samsvarandi sviða hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka, og tóku virkan þátt í uppbyggingu félagsins.
Arnór er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur lokið prófi sem Chartered Financial Analyst® (CFA). Arnór hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann starfaði sem forstöðumaður hlutabréfasviðs Stefnis hf. frá árinu 2007 til 2013 og var forstöðumaður sjóðastýringar Rekstrarfélags Kaupþings banka hf. frá ársbyrjun 2006 til 2007. Arnór hóf störf hjá Kaupþingi hf. árið 2001 sem sérfræðingur á eignastýringarsviði. Á árunum 2002 til 2006 gegndi hann stöðu sjóðstjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins auk fleiri sjóða í umsjón eignastýringarsviðs fagfjárfesta hjá Kaupþingi.
Þorkell er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Minnesota. Þorkell hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann starfaði sem forstöðumaður skuldabréfasviðs hjá Stefni hf. frá ársbyrjun 2007 til 2013 og sem staðgengill framkvæmdastjóra félagsins frá 2009 til 2013. Þorkell hóf störf hjá Kaupþingi hf. árið 1998, starfaði í greiningadeild og síðar sem sjóðstjóri Hlutabréfasjóðsins Auðlindar hf. Á árunum 2001 til 2007 gegndi hann stöðu sjóðstjóra innlendra og erlendra skuldabréfasjóða hjá Rekstrarfélagi Kaupþings ásamt því að taka þátt þróun á sérhæfðum fjárfestingum hjá félaginu.
ALDA Asset Management hf. er rekstrarfélag verðbréfasjóða samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Framkvæmdastjóri félagsins er Þórarinn Sveinsson og stjórnarformaður Birgir Örn Arnarson. Félagið er með starfsstöðvar í Borgartúni 27.