Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur sett Arnór Sighvatsson tímabundið í embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika frá 1. maí 2024 og mun hann gegna stöðunni þar til skipað verður í embættið. Þetta kemur fram í tilkynningu forsætisráðuneytisins.

Arnór tekur nú sem varaseðlabankastjóri sæti í peningastefnunefnd, fjármálastöðugleikanefnd og fjármálaeftirlitsnefnd.

Arnór var aðalhagfræðingur Seðlabankans á árunum 2004 til 2009 og aðstoðarseðlabankastjóri frá 2009 til 2018.

Hann sat þá jafnframt í peningastefnunefnd auk þess að sitja í stjórn Fjármálaeftirlitsins á árunum 2011-2019.

Gunnar Jakobsson, sem gegnt hefur embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika frá 1. mars 2020, lætur að eigin ósk af störfum frá og með 1. maí 2024 en hann hafði áður beðist lausnar úr embætti frá 30. júní nk.

Embætti varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika var auglýst laust til umsóknar 9. apríl síðastliðinn. Forsætisráðherra skipar, samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands , varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika til fimm ára, á grundvelli niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar og að fenginni tilnefningu fjármála- og efnahagsráðherra.