Íslenska tæknifyrirtækið Catecut tilkynnti í dag að Áslaug Magnúsdóttir hafi tekið sæti í stjórn félagsins. Áslaug er stofnandi tískumerkisins Katla, meðstofnandi og fyrrum forstjóri Moda Operandi og fyrrum stjórnandi Gilt Groupe.
Catecut notar myndgreiningu til að bera kennsl á fatnað og merkir eiginleika fatnaðar með sjálfvirkum hætti. Lausnin er sögð bæta leitavélabestun fyrir netverslun með það að markmiði að draga úr ósamræmi í vöruupplýsingum.
„Áslaug er einn virtasti frumkvöðull tískuheimsins og hefur leitt stafræna breytingu í lúxustísku og netverslun á heimsvísu síðustu tvo áratugi. Hún var jafnframt valin ein af 50 valdamestu konum í tískuheiminum af vefritinu Fashionista,“ segir Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Catecut.
Fyrirtækið kynnti einnig sjálfvirka vörumerkingarlausn sína fyrr á árinu sem kynnt var fyrir evrópskum tískuvörumerkjum á Copenhagen International Fashion Fair í febrúar.
„Teymið hjá Catecut hefur þá reynslu og tækni sem þarf til að umbreyta netverslun með fatnað með því að leysa margar raunverulegar áskoranir í rekstri, og upplifun viðskiptavina,“ segir Áslaug Magnúsdóttir.