Ásmundur Tryggvason, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, hefur verið ráðinn forstjóri Styrkáss, nýs þjónustufyrirtækis sem í dag samanstendur af Skeljungi og Kletti.
Í tilkynningu segir að hann muni leiða samstæðuna og í samstarfi við stjórnendur félaganna vinna að innri og ytri vexti Styrkáss með því að útvíkka og efla þjónustu við atvinnulífið á sviði orku og efnavöru, tækja og búnaðar, umhverfis, iðnaðar og eignaumsýslu.
Fyrr á þessu ári gerðu framtakssjóðurinn Horn IV slhf., framtakssjóður í stýringu Landsbréfa hf., og SKEL fjárfestingarfélag hf. með sér samning þar sem Horn leggur Styrkási til nýtt hlutafé að andvirði 3,5 milljarða króna.
Markmiðið með hlutafjáraukningunni er að ýta úr vör framtíðarsýn hluthafa um öfluga samstæðu sem hefur styrk til að þjónusta ólík svið atvinnulífsins við þá innviða- og atvinnuvegafjárfestingu sem fram undan er.
Stefna að skráningu fyrir árslok 2027
Í tilkynningu segir að markmið hluthafa sé að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll á Íslandi fyrir árslok 2027 og mun Ásmundur leiða þá vinnu.
Ásmundur var áður framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestasviðs Íslandsbanka um tæplega fimm ára skeið og var þar áður forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar bankans í sjö ár. Hann hefur jafnframt setið í stjórnum ýmissa félaga, eins og Símans, Lýsingar, VÍS eignarhaldsfélags og Kögunar.